14.7.2012 22:10

Laugardagur 14. 07. 12

Skrifaði í dag pistil hér á síðuna um gjaldmiðilsmálið, ESB og stjórnarskrármálið. Hrakfarir Jóhönnu í stjórnarskrármálinu eru með ólíkindum. Henni dettur þó ekki í hug að hætta. Forvitnilegt verður að sjá hvernig hún klórar sig út úr því að innanríkisráðherra í ríkisstjórn hennar telur ekki ljóst hvenær þjóðaratkvæðagreiðslan um tillögur stjórnlagaráðs skuli verða og óskar eftir ákvörðun alþingis um það. Þingið verður að ákveða kjördag með þriggja mánaða fyrirfara og það kemur ekki saman fyrr en í september. Nú hefur þingsalurinn auk þess verið tæmdur til að búa hann undir fimmtu embættistöku Ólafs Ragnars.

Jóhanna ætlaði að láta greiða atkvæði um stjórnarskrána um leið og forseti var kjörinn 30. júní. Hún réð ekki við það. Vilji hún að kosið verði 20. október, innan frestsins sem alþingi ákvað verður þing að koma saman fimmtudaginn 19. júlí til að ákveða það.

Einfalda leiðin fyrir alþingi er að ákveða að þetta sé alls ekki þjóðaratkvæðagreiðsla heldur skoðanakönnun eins og spurningar í þingsályktunartillögunni gefa  til kynna – þetta getur þingið gert þegar það kemur saman í september og haldið sig við 20. október. Að til þessa ráðs verði gripið er ólíklegt því að Jóhanna vill þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur sem hafa ekkert verið ræddar efnislega af öðrum en stjórnlagaráðsliðum völdum í ólöglegri kosningu.

Ég tel að leita eigi leiða til að vísa þessari meðferð á íslensku stjórnarskránni til Evrópuráðsins og Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), stofnana sem láta sig lýðræði, kosningar og stjórnarskrár varða. Þá hlýtur Evrópusambandið að láta sig málið varða. Það leggur mat á íslenska stjórnarhætti og þeir verða að fullnægja kröfum þess. Skrípaleikur með stjórnarskrár fellur ekki að aðlögunarkröfum ESB.