11.5.2012 22:51

Föstudagur 11. 05. 12

Egill Helgason gerði athugasemd  í tilefni af því að Jóhannes Jónsson sem átti Bónus ætlar að láta að sér kveða að nýju í smásöluverslun. Egill og raunar fjölskylda hans fékk það strax óþvegið frá Jóhannesi.  Það er óskemmtilegt að þessi tónn heyrist að nýju í viðskiptalífinu. Hann er hins vegar gamalkunnur hjá Jóhannesi og til þess ætlaður að þagga niður í öllum sem tala ekki opinberlega eins og honum líkar. Jón Ásgeir, sonur hans, kýs hins vegar að stefna þeim sem skrifa eða tala ekki eins og honum líkar fyrir dómstóla.

Hinn 9. desember 2009 var sagt í fréttum, að Jóhannes í Bónus og Kristín, dóttir hans, hefðu gengið á fund Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands. DV greindi frá því í nóvember, að Jóhannes sakaði Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor um að hafa dreift flugriti innan háskólans um son sinn Jón Ásgeir. Vildi Jóhannes fund með rektor, sem þyrfti að taka afstöðu til hvort reka ætti Hannes. Sagðist Jóhannes hafa fengið nóg af viðleitni þessa opinbera starfsmanns til að niðurlægja fjölskyldu sína.

Á vefsíðunni student.is sagði 9. desember 2009:

„Fundurinn í dag stóð í tuttugu mínútur og voru feðginin ánægð með hann. Þau sögðust hafa gengið á fund rektors með nokkur mál sem nú væru í ákveðnum farvegi sem þau væru ánægð með. Spurður hvort hann teldi að skoðanir og gjörðir háskólakennara utan kennslustofunnar hefðu áhrif á gæði kennslunnar sagði Jóhannes „Innræti manna hlýtur að hafa mikið að segja.““

Háskólarektor vildi ekki skýra frá umræðuefni á fundinum með Bónus-feðgininum. Ósennilegt er að annað hafi verið rætt á fundinum en tilefni hans. Ég sagði hér á síðunni 9. desember 2009:  „Jóhannes í Bónus er þekktur fyrir að vilja leggja stein í götu allra, sem hann telur sér óvinsamlega. Hann og fjölmiðlar hans leggja illt til þessara manna og leynt og ljóst er reynt að hrekja þá úr störfum þeirra. Það dregur úr virðingu Háskóla Íslands, leggi rektor hans þessari áráttu Jóhannesar lið.“

Þessi fundur Jóhannesar með háskólarektor minnir á fundinn sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri heimtaði með ríkissaksóknara eftir að hann neitaði að ákæra á þann veg sem Már vildi í krafti gjaldeyrishaftanna. Már telur greinilega að fælingarmáttur sinn skerðist við hina misheppnuðu aðför hans sem sérstakur saksóknari og ríkissaksóknari ákveða að hafa að engu. Hvenær skyldi umboðsmaður alþingis skila áliti sínu á þessu máli sem saksóknari hefur hafnað?