25.4.2012 19:55

Miðvikudagur 25. 04. 12

 

Í kvöld ræði ég við Friðrik Sophusson, fyrrverandi fjármálmálaráðherra, í þætti mínum á ÍNN um landsdóminn yfir Geir H. Haarde sem var sýknaður af efnisþáttum málsins en dæmdur fyrir að ekki skyldi bókað á ríkisstjórnarfundi að hann hefði vakið máls á vandræðum bankakerfisins. Þáttinn má sjá klukkan 20.00 og á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Ég skora á menn að hlusta annars vegar á samtal okkar Friðriks sem reist er á margra ára starfsreynslu okkar sem ráðherra og hins vegar á útlistanir Guðmundar Hálfdanarsonar sagnfræðiprófessors sem Gunnar Gunnarsson ræddi við í Spegli RÚV klukkan 18.15 í dag.

Túlkun Guðmundar á landsdóminum og harðorð ummæli hans um stjórnsýsluna eiga ekki við nein málefnaleg rök að styðjast. Þegar dómurinn er lesin kemur í ljós að upplýsingar lágu fyrir um hættuna sem steðjuðu að bönkunum. Hins vegar má ráða af niðurstöðum dómara að ekki hefði verið á valdi íslenskra stjórnvalda að koma í veg fyrir hrun bankanna.

Það er skrýtið að Guðmundur skuli ekki krafinn skýringa á fullyrðingu sinni um að dómurinn sé „mjög mikill áfellisdómur“ yfir stjórnsýslunni. Þá er engin innistæða fyrir þeim orðum Guðmundar að í dóminum sannist eitthvað óeðlilegt varðandi pólitískt skipaða embættismenn. Skyldi Guðmundur ósammála því mati dómaranna að orð Davíðs Oddssonar 7. febrúar 2008 hafi falið í skýrustu viðvörun um að hætta steðjaði að bönkunum?

Til er að verða efniviður í sérstaka skýrslu um niðurstöðu rannsóknaraðila og dómara  vegna bankahrunsins annars vegar og útleggingar fræðimanna í Háskóla Íslands á þessum niðurstöðum og dómum hins vegar.

Í rökstuðningi meirihluta landsdóms fyrir sakfellingu Geirs vegna brota á 17. gr. stjórnarskrárinnar af „stórfelldu gáleysi“ kemur fram að ekki yrði „horft fram hjá því að ekki hefði komið til sakfellingar hefði ákærði [Geir] gætt að  því að taka þessi málefni upp [vandræði bankanna] innan ríkisstjórnarinnar…“ Af því sem áður segir í rökstuðningnum má ráða að dómarar hefðu talið nægja að í einni fundargerð ríkisstjórnar frá febrúar 2008 til október 2008 hefði staðið setning eins og þessi: Forsætisráðherra vakti máls á vanda bankakerfisins.

Línan milli sýknu og sakfellingar er ekki meiri í þessu máli. Það er því réttmætara að segja um málaferlin að hið þunga högg sem veita átti með þeim hafi geigað en að þau feli í sér mjög mikinn áfellisdóm yfir þingmönnunum sem ýttu ferlinu af stað með ákæru sinni.