20.4.2012 23:50

Föstudagur 20. 04. 12

Sýning Íslensku óperunnar á La Bohème eftir Puccini er glæsileg í orðsins fyllstu merkingu. Tekist hefur á frábæran hátt að virkja sal Eldborgar sem umgjörð og listamennirnir stóðu sig með mikilli prýði í kvöld.

Fréttatíminn tók á sig aðra mynd í dag enda hafa orðið eigendaskipti að hluta með brotthvarfi Jóns Kaldals úr ritstjórastóli. Á forsíðu er birtur inngangur að stjórnmálaskýringu eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttur sem var á sínum tíma handlangari Baugsmanna á Fréttblaðinu. Meginkenning Sigríðar Daggar er að Jóhanna Sigurðardóttir eigi högg að sækja sem formaður Samfylkingarinnar af því að hún hafi látið svo mikið eftir Steingrími J. Sigfússyni, hann standi hins vegar traustum fótum í eigin flokki. Engir heimildarmenn þessara kenninga eru nefndir til sögunnar.

Það er rétt hjá Sigríði Dögg að Jóhanna stendur höllum fæti en Steingrímur J. gerir það líka enda hefur hann svikið öll kosningaloforð sín og leggur nú fram arfavitlaust frumvarp um stjórn fiskveiða sem átti að verða einhvers konar meistarastykki hans við þjóðarsátt.

Andstæðingar Jóhönnu innan Samfylkingarinnar verða að finna einhverja aðra skýringu á falli hennar en þjónkun við Steingrím J. þegar þeir beita blaðamanni til að vega að formanninum. Enn vitlausari er þó kenning Sigríðar Daggar um að við Styrmir Gunnarsson séum helstu andstæðingar Bjarna Benediktssonar innan Sjálfstæðisflokksins. Að hún skuli halda því fram sýnir að hún hefur ekki minnstu hugmynd um hvað er að gerast innan Sjálfstæðisflokksins enda færir hún engin rök fyrir þessari einfeldningslegu fullyrðingu sinni.