3.4.2012 22:10

Þriðjudagur 03. 04. 12

Það er með ólíkindum að fylgjast með skrifum Teits Atlasonar, bloggara DV, um Evrópuvaktina og styrk alþingis til síðunnar. Eftir að hann hafði fimbulfambað um málið í nokkrum pistlum tók Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, undir með honum og gaf til kynna að Evrópuvaktin hefði ekki staðið alþingi reikningsskil gerða sinna.

Þungamiðja þessara furðuskrifa snýst um að ég hafi ekki hitt neina viðmælendur á ferð minni til Brussel, Berlínar og Frankfurt þar sem ég hafi aðeins nafngreint einn þeirra, Hans Olaf Henkel, en Teitur hefur tekið sér fyrir hendur að útmála hann í skrifum sínum. Teitur birtir pistil á dv.is í dag þar sem hann lætur enn eins og óvíst sé að ég hafi hitt um 40 einstaklinga og greint alþingi frá nöfnum þeirra. Alþingi hafði þó sent honum í gær lista með nöfnum þessa fólks. Teitur er kannski tekinn til við að rannsaka hvort ég hafi hitt fólkið?

Samhliða því sem Teitur spinnur þennan þráð um að ég hafi ekki talað við neinn hefur hann og síðan Álfheiður látið að því liggja að ég hafi varið stórfé til dvalar minnar  í Belgíu og Þýskalandi 11. október til 11. nóvember. Vegna þessara skrifa hefur alþingi sent Teiti og Álfheiði reikningsskil Evrópuvaktarinnar til fróðleiks og við höfum einnig birt þau á Evrópuvaktinni eins og sjá má hér. Þar kemur í ljós að Evrópuvaktin greiddi 911.416 kr. vegna mánaðardvalar minnar erlendis. Er óravegur milli þeirrar tölu og spunatalna Teits.

Þess má geta að Teitur hefur ekki látið við það sitja fara með fleipur um viðmælendur mína og semja eigin reikninga fyrir Evrópuvaktina.  Hann hefur einnig talið sé fært að kenna mér blaðamennsku og hvernig eigi að skrifa greinar þegar heimildarmenn vilja ekki að nafns þeirra sé getið eða rætt er við þá með því fororði að það sé ekki gert. Virðing fyrir heimildarmönnum og vernd þeirra er eitt grundvallaratriða í blaðamennsku.