4.12.2011

Sunnudagur 04. 12. 11

Fórum klukkan 16.00 í Gunnarshús við Dyngjuveg, hús Gunnars Gunnarssonar skálds, þar sem Rithöfundasamband Íslands hefur aðsetur. Þar lék Gunnars Gunnarsson sellóleikari einleiksverk eftir Bach við góðar undirtektir áheyrenda. Vat þetta hátíðleg og ógleymanleg stund.

Í dag er þess minnst að 150 ár eru liðin frá fæðingu Hannesar Hafstein, fyrsta ráðherrans. Af því tilefni var Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu opinn almenningi á mbl.is mátti lesa að þetta væri í „fyrsta sinn sem bústaðurinn er opinn almenningi“. Þetta er ekki rétt á sjötta áratugnum var bústaðurinn opinn almenningi 17. júní þar sem ríkisstjórnin tók á móti gestum.

Um þessa helgi rífast ráðherrar enn um Huang Nubo. Ég fjalla um málið í pistli hér á síðunni.

Kolbeinn Ó. Proppé er furðufugl meðal fjölmiðlamanna. Skrif hans um stjórnmál í Fréttablaðið hníga jafnan að því að gera hlut stjórnarflokkanna og þó einkum VG sem mestan og bestan. Skrifin minna á hvernig skrifað var um Baug og Baugsmenn í blaðið fyrir hrun.

Á dögunum sagði ég frá samtali okkar Hannesar Hólmsteins á ÍNN og því sem hann hefði sagt um Svavar Gestsson og Svandísi dóttur hans þegar þau nutu sérréttinda nomenkláturunnar, forystusveitar kommúnista, í Austur-Berlín. Kolbeinn rétti Svandísi hjálparhönd með aulafyndni í húskarlahorni Fréttablaðsins. Svandís nýtir sér hjálpina og reynir að verða enn fyndnari á kostnað austur-þýskra kommúnistaflokksins á fésbókarsíðu sinni.

Þetta minnir allt á vandræðalega flissið sem sem upphefst í þessum söfnuði þegar minnst er á uppruna hans og fortíð - hvorugt breytist þó við aulabrandarana.