30.8.2011

Þriðjudagur 30. 08. 11

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifar grein í Fréttablaðið í dag í stólnum: Landið rís! Hann leitast við að efla eigið sjálfstraust og stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, að minnsta kosti í Samfylkingunni. Greinin minnti mig á minnisblað sem Össur flaggaði oft sem iðnaðarráðherra eftir að bankarnir hrundu þar sem hann lýsti öllum þeim stórverkefnum sem biðu þess eins að verða hrundið í framkvæmd og myndu forða þjóðinni frá atvinnuleysi og efla hagvöxt. Fátt að því hefur ræst á þremur síðustu árum.

Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi segir nokkrum sinni frá Össuri og hvernig hann vill gjarnan geta skipað sér í öll lið ef svo ber undir. Í greininni í Fréttablaðinu víkur Össur að stjórn fiskveiða. Orð hans verða til þess að Jón Kristjánsson fiskifræðingur vekur máls á því í bloggi sínu að Össur hafi skipt um skoðun í málinu eins og lesa má hér.

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor birtist í Kastljósi í kvöld til að gagnrýna bændur fyrir að starfa samkvæmt búvörusamningi sem samþykktur var einróma á þingi eftir kosningar 2009. Að RÚV gefi Þórólfi svo mikið rými í fréttum og fréttatengdum þáttum er með ólíkindum.

Í þingskjölum má sjá svör við spurningum um framkomu álitsgjafa í RÚV árin 2009 og 2010 meðal annars i Speglinum. Þar hefur enginn álitsgjafi oftar látið ljós sitt skína en Þórólfur Matthíasson, 15 sinnum árið 2009 og 10 sinnum árið 2010, samtals 25 sinnum. Enginn álitsgjafi kemst með tærnar þar sem Þórólfur hefur hælana. Spegillinn er í sumarleyfi og þá fær Þórólfur inni í Kastljósinu fyrir áróður sinn gegn sauðkindinni.

Fréttamenn RÚV vitna gjarnan í blaðagreinar Þórólfs. Undrun vekur að þeir skuli ekki vitna í grein Helga Magnússonar, formanns Samtaka iðnaðarins, í Morgunblaðinu í dag þar sem hann lýsir stöðu efnahags- og atvinnumála á mun trúverðugri hátt en Þórólfur hefur nokkru sinni gert. Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf: Aðgerðin heppnaðist - en sjúklingurinn lést.