27.8.2011

Laugardagur 27. 08. 11

Hilmar Oddsson sagði upp starfi sínu sem skólastjóri Kvikmyndaskóla Íslands vegna óvissu um framtíð hans. Svandís Svavarsdóttir, starfandi menntamálaráðherra, sem hefur sakað stjórnendur skólans um frekju og óbilgirni vegna baráttu þeirra fyrir framtíð hans, sparkaði bæði í skólann og Hilmar eftir að fréttir bárust um afsögn hans. Ráðherrann taldi hana sanna alla fordóma sína um vonlausa framtíð skólans.

Þessi ruddalega framkoma ráðherrans staðfestir ekki annað en óvild Svandísar í garð skólans og sýnir að tregða stjórnvalda til að taka á málefnum hans byggist á sömu pólitísku hugmyndafræði og skattahækkanirnar vorið 2009. Aðferðirnar við að hrinda stefnuninni eru sambærilegar.

Vorið 2009 lét Steingrímur J. eins og umbylting skattkerfisins væri óhjákvæmileg vegna bankahrunsins af því að hann hafði ekki þrek til að kynna hækkanirnar sem stefnu vinstri-grænna. Sömu sögu er að segja um Svandísi. Hún dirfist ekki að lýsa andstöðu sinni og flokks síns við einkarekna skóla heldur bregður upp þeirri mynd af þeim að þeir séu óalandi og óferjandi.