4.8.2011

Fimmtudagur 04. 08. 11.

Í tveimur dagbókarfærslum hér á síðunni hef ég birt kafla úr grein eftir háskólakennarana Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur í ágúst-hefti enskrar útgáfu á Le Monde diðlomatique. Þessir kaflar sýna að þau Wade og Sigurbjörg búa ekki yfir neinni þekkingu til að skrifa um íslensk stjórnmál á loka áratugum 20. aldarinnar. Þau spinna pólitískan þráð sem fellur að vinstrisinnuðum skoðunum þeirra sjálfra auk þess sem þau eru haldin trú á samsæriskenningar sem samræmist ekki vinnubrögðum vandaðra fræðimanna.

Í gær sagði ég frá kenningum þeirra um uppruna og markmið Eimreiðarhópsins. Í framhaldi af þeirri efnisgrein sem ég birti í íslenskri þýðingu minni segja þau að sem borgarstjóri hafi Davíð Oddsson selt Bæjarútgerð Reykjavíkur og segja að það hafi verið gert „til hagsbóta fyrir félaga í Eimreiðarhópnum“. Þá láta þau þess getið að Davíð hafi setið í 14 (svo) ár sem forsætisráðherra og síðan sest í stól seðlabankastjóra. Þá segja þau: „Hann hafði litla reynslu af eða áhuga á heiminum utan Íslands. Geir Haarde, skjólstæðingur hans innan Eimreiðarhópsins, fjármálráðherra 1998 til 2005, varð forsætisráðherra skömmu síðar. Þessir tveir menn höfðu mestu beina stjórn á hinni miklu tilraun Íslands til að koma á alþjóðlegri fjármálamiðstöð í  Norður-Atlantshafi, mitt á milli Evrópu og Ameríku.“

Þegar þessi lýsing háskólakennaranna er lesin vekur undrun að háskólakennararnir láta hjá líða að nefna framsóknarmenn til sögunnar eða hlut Halldórs Ásgrímssonar sem forsætisráðherra og eftirmanns Davíðs. Halldór setti á laggirnar nefnd til að móta tillögur um Íslands sem alþjóðlega fjármálamiðstöð og skipaði Sigurð Einarsson, stjórnarformann Kaupþings, formann í henni.

Eftir að hafa farið orðum um einkavæðingu bankanna segja greinarhöfundur frá hinni nýju kynslóð fésýslumanna og segja að því ríkari sem þeir urðu þeim mun meiri pólitískan stuðning hafi þeir fengið. Þau minnast ekki einu orði á deilur Davíðs og annarra manna í forystusveit Sjálfstæðisflokksins við Baugsmenn og láta að engu getið stuðningi Samfylkingarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar við Baugsmenn.

Ég ætla ekki að rekja þessi skrif frekar en tel að með dæmunum sem ég hef tekið hafi ég fært rök fyrir þeirri skoðun að þau Wade og Sigurbjörg standist í grein sinni ekki þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til háskólakennara sem taka sér fyrir hendur að rita grein um efni á sínu sviði – þau falla í samsærispottin og verða ómarktæk. Að grein þeirra skuli birt í enskri útgáfu á Le Monde diplomatique er blaðinu til skammar, svo að vægt sé til orða tekið.