26.7.2011

Þriðjudagur 26. 07. 11.

Eftir ríkisstjórnarfund í dag þar rætt var um viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna blóðbaðsins í Noregi 22. júlí sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að hann ætlaði að láta endurskoða vopnalögin. Hann sagði ekki til hvers en hugmyndin er ekki frumleg því að hún er einnig til umræðu í Danmörku eins og sjá má hér.

Í Danmörku ræða stjórnmálamenn um að PET, danska leyniþjónustan, eigi að taka þátt í útgáfu á leyfum til að eiga skotvopn. Í máli Ögmundar Jónassonar kom ekki fram hvort hann ætlaði að veita lögreglunni hér heimild til forvirkra rannsókna til að geta beitt nýjum aðferðum við útgáfu vopnaleyfa. Danskur lagaprófessor segir að menn geti ekki breytt vopnalögum á þann hátt að það útiloki voðaverk. Hið sama á vissulega við hér á landi.

Raunar er jafnerfitt að átta sig á því hvert Ögmundur er að fara í ummælum um vopnalögin vegna atburðanna í Noregi og því sem hann segir um vandræðin í ríkisstjórninni við ákvörðun um nýtt fangelsi. Í nokkurn tíma hefur átt að taka ákvörðun um næsta skref vegna byggingar nýs fangelsis á næsta ríkisstjórnarfundi og þá meðal annars í dag. Það gerðist þó ekki og þá sagðist Ögmundur fagna því að ákvörðun ætti að taka fyrir lok ágúst!

Ef deilan um fangelsið snýst um hvort ríkið ætlar að reisa og eiga bygginguna eða hvort hún eigi að vera í einkaeign verður hún ekki leyst fyrir lok ágúst nema annar hvor gefi sig Ögmundur eða Steingrímur J. Augljóst er að ríkissjóður hefur ekki burði til að standa straum af byggingarkostnaðinum og skýrðist það enn betur en áður á ríkisstjórnarfundi í morgun þegar í ljós kom að Steingrímur J. hefur ekki sagt satt um hag ríkissjóðs. Hvers vegna vill Ögmundur fresta ákvörðun um einkaframkvæmdina fram undir lok ágúst?