23.7.2011

Laugardagur 23. 07. 11.

Í dag skrifaði ég leiðara um hið ógnvekjandi ódæðisverk í Noregi á Evrópuvaktina og má lesa hann hér.

Almennt er litið til norsks samfélags sem fyrirmyndar að því er varðar samheldni og stöðugleika. Þessi mynd skekkist við atburð eins og þennan. Er með ólíkindum að í opnu, lýðræðislegu þjóðfélagi telji einstaklingur svo að sér þrengt og skoðunum sínum að hann verði að grípa til fjöldamorða í því skyni að skapa sér svigrúm eða breyta stefnu samfélagsins. Í þessu ljósi ber að skoða yfirlýsingar norskra ráðamanna um að þeir ætli ekki að láta fólskuverkið vega að hinum samfélagslegu gildum.

Hryðjuverk af hvaða toga sem er kalla á samfélagsleg viðbrögð. Norska ríkið býr yfir öllum tækjum til að takast á við hættuna af hryðjuverkamönnum. Þar er öflug leyni- og öryggislögregla sem fylgist náið með hópum sem taldir eru líklegastir til að láta til skarar skríða. Starfa hóparnir í þágu pólitískra hugsjóna eða undir merkjum náttúru- og umhverfisverndar. Á hinu áttu norsk yfirvöld greinilega ekki von að einn af borgurum landsins gripi til vopna á þann hátt sem gert var 22. júlí. Að það tók lögreglu 90 mínútur að komast út í Útey til að bjarga unga fólkinu undan skothríðinni vekur strax spurningar og gagnrýni.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði í sjónvarpi í dag að ríkisstjórnin mundi á næsta fundi sínum ræða aðgerðir til að efla öryggi hér á landi eftir voðaverkið í Noregi. Því miður var hún ekki spurð um í hverju aðgerðirnar ættu að felast.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur rætt um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu án þess að þær eigi að snúa að hópum af pólitískum toga. Undir þá skilgreiningu falla umhverfis- og náttúruverndarsinnar og ýmsir hryðjuverkahópar. Þá segist ódæðismaðurinn í Ósló og Útey vinna að pólitísku markmiði með fjöldamorðinu. Ef fylgst hefði verið með vefsíðu hans hefði kannski mátt greina hvað fyrir honum vakti. Hann hafði hins vegar aldrei komist í kast við lögin og lá ekki undir grun þrátt fyrir öfgafullar skoðanir.

Ætlar Jóhanna að fá Ögmund ofan að fyrirvara sínum gagnvart forvirkum rannsóknarheimildum? Verður atvikið í Noregi til þess að ríkisstjórn Jóhönnu hefst handa við að koma á fót leyni- og öryggislögreglu hér á landi? Þar sem hún hefur aðild að ESB á stefnuskrá sinni slægi hún tvær flugur með þeirri ákvörðun, hún efldi innra öryggi og lagaði sig að kröfum ESB á sviði öryggismála.