16.2.2011

Miðvikudagur 16. 02. 11.

Alþingi samþykkti Icesave III með 44 atkvæðum í dag. Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru á móti: Unnur Brá Konráðsdóttir, Pétur Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson. Fellt var 32 gegn 30 að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Fagna ber því að allir sjálfstæðismenn greiddu atkvæði með þeirri tillögu.

Fyrir nokkru hitti ég erlendan lögfræðing sem starfar í Brussel en þekkir vel til aðstæðna hér á landi. Hann taldi fráleitt að nokkur stjórnmálamaður tæki ákvörðun um að leysa þetta mál með samningi eftir að fram hefðu komið jafnskýr rök gegn því að kröfur Breta og Hollendinga styddust við lög.

Þingmenn sem styðja þennan gjörning láta eins og það skapi honum sérstöðu meðal laga að tveir þriðju þingmanna studdu frumvarpið að lokum. Það breytir einfaldlega ekki neinu um réttarstöðu málsins. Helst mál skilja orð þingmannanna á þann veg að skoða beri þessa staðreynd í ljósi 26. gr. stjórnarskráinnar um rétt forseta Íslands til að hafna lögum.

Ef litið er til yfirlýsinga Ólafs Ragnars um rök hans fyrir því að beita 26. greininni er það gjáin milli þings og þjóðar sem hann hefur í huga eða hve margir þingmenn hafa áhuga á að viðkomandi mál sér lagt fyrir þjóðina.

Hin ný samþykktu lög voru send með hraði til forseta. Var sagt frá því í fréttum að á forsetaskrifstofunni myndu menn ekki eftir slíkum flýti af hálfu ríkisstjórnar og alþingis. Síðast þegar Ólafur Ragnar fékk Icesave-lög frá Steingrími J. gerðist það á ríkisráðsfundi. Þá hlupu þau Jóhanna og Steingrímur J. á sig þegar þau samþykktu að Ólafur Ragnar tæki sér frest til hugsa málið. Nú vilja þau ekki gefa honum neitt slíkt ráðrúm heldur heimta undirritun strax.

Beðið er yfirlýsingar frá Bessastöðum.