26.1.2011

Miðvikudagur 26. 01. 11.

Í dag ræddi ég við Ólaf Þ. Harðarson, prófessor og forseta félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum í fyrri hluta þáttarins um hinn ótrúlega atburð að kosningar á landsvísu skyldu ógiltar hér á landi eftir kæru til hæstaréttar. Í seinni hluta þáttarins fræddist ég af Ólafi um hlutverk forseta fræðasviðs innan háskólans en til sviðanna var stofnað árið 2008.

Þegar rætt er um hlutverk ríkisins er jafnan litið fyrst til þess að það tryggi borgurum sínum öryggi í víðum skilningi. Í vestrænum lýðræðisríkjum er jafnframt litið á það sem grunnverkefni ríkisvaldsins að tryggja borgunum rétt til að njóta lýðræðislegra réttinda sinna og þar gegna kosningar lykilhlutverki. Að löggjafinn og framkvæmdavaldið ráði ekki við að efna til kosninga að mati þriðja aðila, hér á landi hæstaréttar, er slíkt áfall fyrir þá sem hafa forystu fyrir þing og ríkisstjórn að ekki er unnt að benda á  neitt sem er meira til marks um óhæf stjórnvöld.

Enginn hefur hrópað oftar og hærra á það á þingi undanfarin ár en Jóhanna Sigurðardóttir að ráðherrar axli ábyrgð. Þegar stjórnsýsluklúður, sem áður var talið óhugsandi, gerist á hennar vakt segir hún í raun engan hafa verið á vaktinni, því að enginn þurfi að axla ábyrgð. Enn og aftur er ástæða til að spyrja hve lengi þingflokkur Samfylkingarinnar ætlar að líða Jóhönnu þessa stjórnarhætti. Hvað sem öðru líður eru þeir í hróplegri andstöðu við heitstrengingar um að fara að ábendingum rannsóknarnefndar alþingis um umbætur í stjórnsýslunni.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor, hefur aðstoðað forsætisráðherra og ráðuneyti hennar við að hrinda  breytingum í anda rannsóknarskýrslunnar í framkvæmd. Í stað þess að fylgja tillögum sínum eftir í ljósi hinna ógildu kosninga gengur hann fram fyrir skjöldu og leggur til að þeir sem hlutu ógilda kosningu á stjórnlagaþing verði skipaðir í stjórnlaganefnd. Í samtali okkar Ólafs Þ. Harðarsonar sagði hann þá aðferð „afar óheppilega“.