22.12.2010

Miðvikudagur 22. 12. 10.

Gunnar Eyjólfsson sagði frá brotum úr ævi sinni í Rótarýklúbbi Reykjavikur í hádeginu á sinn einstæða hátt. Í rúmar 30 mínútur sátu klúbbfélagar sem dáleiddir og hlustuðu á sagnameistarann.

Fréttir úr herbúðum vinstri-grænna og ríkisstjórnarinnar verða sífellt undarlegri. Ég sé í anda hvaða viðbrögð hefðu orðið í þingflokki sjálfstæðismanna ef formaður fjárlaganefndar úr samstarfsflokki okkar hefði sagt, að hann gæti ekki starfað með þeim þingmanni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði tilnefnt til setu í nefndinni. Samfylkingarkonan Oddný Harðardóttir hefur sagt að hún geti ekki starfað með Ásmundi Einari Daðasyni, þingmanni vinstri-grænna, í fjárlaganefnd. Lá í loftinu að Ásmundur Einar ætti að víkja úr nefndinni vegna þessarar afstöðu Oddnýjar. Engum datt í hug að spyrja hana, hvort hún gæti ekki auðveldlega verið sjálfri sér samkvæm, sagt af sér formennsku og horfið úr nefndinni.

Frosti Sigurjónsson ritar góða úttekt um nýtt sérrit Seðlabanka Íslands eins og lesa má hér.