16.10.2010

Laugardagur, 16. 10. 10.

Nú eru tvær vikur liðnar frá þingsetningu undir eggjakasti og nk. mánudag frá því að Jóhanna flutti stefnuræðu sína undir tunnuslætti á Austurvelli. Eftir ræðuna sagði Jóhanna í sjónvarpsviðtali, að hún ætlaði að kalla stjórnarandstöðuna til viðræðna og samstarfs. Síðan hefur mikið verið talað á mörgum fundum, án þess að nokkuð hafi gerst. Sagt er, að nú um helgina sitji sérfræðingar yfir einhverjum dæmum.

Ríkisstjórnin hefur setið við völd síðan 1. febrúar, 2009. Þegar Jóhanna settist í embætti forsætisráðherra sagðist hún ætla að láta hendur standa fram úr ermum. Það yrðu þáttaskil frá aðgerðaleysi til athafna. Forgangsraðað í þágu heimilanna, slegin yrði skjaldborg um heimilin. Nú er 16. október, 2010, og Jóhanna er að láta reikna fyrir sig. Hún hefur meira að segja fengið efnahagsráðgjafa í stjórnarráðshúsið, þótt hún hafi kastað efnahagsstjórninni frá sér og tekið jafnréttismál í staðin.

Innan ríkisstjórnarinnar er augljós ágreiningur um leiðir. Hann er í ráðherraliði vinstri-grænna, Steingrímur J. og Ögmundur Jónasson eru á öndverðum meiði. Þeir tala hvor gegn öðrum, á meðan Jóhanna lætur reikna. Innganga Ögmundar í ríkisstjórnina hefur gert hana óstarfhæfari en áður og er þá mikið sagt.