23.7.2010

Föstudagur 23. 07. 10.

Í dag er rétt ár liðið frá því, að Össur Skarphéðinsson fór til Stokkhólms og afhenti Carl Bildt ESB-umsóknarbréf. Í dag kom utanríkismálanefnd alþingis saman til að hlusta á Össur gera grein fyrir því, sem hann ætlar að segja og leggja fram á ríkjaráðstefnu með ESB í Brussel 27. júlí. Sjálfstæðismenn í utanríkismálanefnd töldu ótímabært fyrir Össur að sækja ráðstefnuna. Tillaga um að draga umsóknina til baka lægi fyrir alþingi og vinstri grænir ætluðu að taka málið til umræðu og endurskoðunar.

Í samtali við mbl.is um framlag sitt á fundi utanríkismálanefndar vitnar Össur í skýrslu Evrópunefndar frá mars 2007, en við sátum saman í henni. Telur hann, að kafli skýrslunnar um sérlausnir gefi honum von um, að unnt sé að semja við ESB. Nefnir hann landbúnað Finna sérstaklega til sögunnar. Íslenskir bændur hafa sérstaklega farið ofan í sérlausn Finna og telja gildi hennar oftúlkað. Ég er sömu skoðunar. Að telja hana gefa fordæmi fyrir því Íslendingar geti samið sig undan sjávarútvegsstefnu ESB er fráleitt.

Svo virðist sem embættismenn í utanríkisráðuneytinu hafi ofurtrú á því, sem segir í þessum sérlausna-kafla Evrópuskýrslunnar. Einn þeirra sagði við mig, eftir að ég hafði talað á fundi, sem hann sat: Þú gleymdir að minnast á sérlausnirnar! Ég er þeirrar skoðunar, að besta sérlausnin fyrir okkur Íslendinga gagnvart ESB sé að halda okkur við EES-samninginn. Hann fellur best að hagsmunum okkar og sérstöðu.