9.7.2010

Föstudagur, 09. 07. 10.

Þegar ég gekk fram hjá stjórnarráðshúsinu um hádegisbilið, varð ég undrandi að sjá lítinn hóp fólks í portinu fyrir aftan húsið. Það lamdi potta og pönnur. Kona hrópaði í gjallarhorn í áttina að Lækjartorgi og hvatti þá, sem þar voru í veðurblíðunni að slást í hópinn. Einn lögreglumaður sást við norðausturhorn stjórnarráðshússins.

Í fréttum sjónvarps sá ég, að þeir, sem voru þarna á ferð vildu sýna Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) í tvo heimana. Starfsmenn sjóðsins hljóta að verða orðnir vanir því, að þeim sé mótmælt á ólíkum tungumálum og með ólíkum aðferðum í ólíkum löndum. Hlutverk þeirra felst í því að flytja slæmar fréttir, því að til sjóðsins er leitað, þegar allar aðrar leiðir eru lokaðar.

Nú er um það rætt innan ESB, að stofnanir á þess vegum taki á sig mynd AGS með eftirliti með fjárlagagerð og refsingu, sé ekki farið að settum, ströngum reglum í einstökum ESB-ríkjum. AGS er svo fjarri almenningi, að mótmæli hafa engin áhrif á starf sjóðsins eða stefnu. Þótt lýðræði sé ekki í hávegum haft innan ESB, eru stofnanir ESB nær almenningi en AGS. Ef ESB ætlar að feta í fótspor AGS munu lýðræðisleg áhrif á stofnanir ESB enn minnka.