27.4.2010

Þriðjudagur, 27. 04. 10.

Ný vefsíða, Evrópuvaktin.is sá dagsins ljós í dag. Við Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, önnumst umsjón með efni síðunnar, en að rekstrarlegum þætti kemur félagið Evrópuvaktin og annast Friðbjörn Orri Ketilsson umsýslu vegna þess. Vefmiðlun ehf. annast veftæknilegu hliðina. Í kynningu á síðunni segir:

„Á Evrópuvaktinni er lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá verður fylgst með framvindu alþjóðlegra stjórnmála og efnahagsmála í þessu ljósi. Efni síðunnar byggist á fréttum, fréttaskýringum, pistlum og ritstjórnardálkum.“


Í leiðara síðunnar í dag sagði ég:

„Fyrir okkur, sem að Evrópuvaktinni stöndum, vakir að sjá til þess, að Íslendingar fljóti ekki sofandi inn í Evrópusambandið. Við viljum miðla upplýsingum um þróun mála innan sambandsins. Á þann hátt öðlast menn ekki síður góðan skilning á eðli þess og starfsháttum en með fræðilegri umfjöllun.

Umsjónarmenn Evrópuvaktarinnar hafa ekki leynt andstöðu sinni við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í þeirri skoðun felst ekki andstaða við Evrópusambandið eða aðildarþjóðir þess, heldur byggist hún á varðstöðu um hagsmuni Íslands og Íslendinga. Afstaðan hefur mótast af áralangri þátttöku í umræðum um íslensk stjórnmál, Evrópu- og alþjóðamál, auk þess sem ég hef kynnst innviðum Evrópusambandsins og þátttöku Íslands í því sem alþingismaður og ráðherra.“

Ég hvet lesendur síðu minnar til fylgjast með Evrópuvaktinni frá upphafi.