30.1.2010

Laugardagur, 30. 01. 10.

Dagurinn hér í Fljótshlíðinni var einstaklega bjartur og fallegur í logninu. Eyjafjallajökull skjannahvítur og snjóföl á Þríhyrningi en jörð auð í byggð.

Ég skrifaði pistil í tilefni af ársafmæli ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. Þau fengu leyfi Ólafs Ragnars til að mynda hana sem minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokksins 1. febrúar 2009. Samfylking sleit stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, af því að hún taldi sig geta gert betur meðal annars við að troða Íslandi inn í Evrópusambandið í samstarfi við vinstri-græna. Ríkisstjórnin var mynduð í anda óvildar í garð Sjálfstæðisflokksins. Verði spenna í stjórnarsamstarfinu telja stjórnarliðar í sig kjark með því að fjargviðrast yfir Sjálfstæðisflokknum. Slíkt hugarfar leysir engin vandamál þjóðarinnar, enda eru þau öll í verra horfi nú en fyrir ári, eins og sést af pistli mínum.

Jóhanna hefur dregið sig inn í skel, eftir að hún varð forsætisráðherra. Hún heldur ekki fram hagsmunum þjóðarinnar út á við. Samfylkingin getur ekki losað sig við hana af ótta við, að flokkurinn splundrist í átökum um eftirmanninn. Steingrímur J. beitir yfirgangi til að halda völdum innan eigin flokks, eins og sást á því, þegar hann bannaði ályktun um Icesave á nýlegum flokksráðsfundi, af því að hann óttaðist að þeir Svavar Gestsson mundu tapa henni.

Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins fengu forráðamenn gamla Alþýðubandalagsins, Steingrímur J. og Svavar, tækifæri til að sýna, hvernig þeir héldu á hagsmunum þjóðarinnar í erfiðri deilu við aðrar þjóðir. Við öllum blasir, að þeir réðu ekki við málið. Öll viðleitni Steingríms J. miðar að því að fela hina hörmulegu niðurstöðu. Hann gengur erinda Breta og Hollendinga í von um að geta fundið leið til að réttlæta óhæfuverkið. Ólafi Ragnari tókst að draga athygli frá eigin þjónkun við útrásarvíkingana með því að neita að rita undir lög Steingríms J. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lætur eins og hann geti verið „stikkfrí“ í þessari milliríkjadeilu.