9.11.2009

Mánudagur, 09. 11. 09.

Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál og Varðberg efndu til hádegisfundar í Norræna húsinu, þar sem Ágúst Þór Árnason, kennari við Háskólann á Akureyri, flutti fyrirlestur: Múrbrot horfinnar hugmyndafræði - 20 ár frá falli Berlínarmúrsins.

Ég setti fundinn með ávarpi. Góður rómur var gerður að máli Ágústs Þórs og spurðu fundarmenn margs að því loknu. Hann lýsti því, hve mikil áhrif dvöl sín í Berlín hefði haft á lífsviðhorf sitt. Raunar væri með ólíkindum, að nokkrum manni á Vesturlöndum hefði dottið í hug að halda uppi vörnum fyrir stjórnkerfi kommúnismans. Í Þýskalandi hefði tilraunin með hið lýðræðislega stjórnkerfi í samvinnu við markaðsöflin tekist. Þar réði mestu, að Þjóðverjar hefðu af raunsæi horfst í augu við eigin sögu að lokinni síðari heimsstyrjöldinni og nýtt sér lýðræðisreynslu og þekkingu frá Bandaríkjunum til að leggja grunn að nýjum stjónarháttum.