20.10.2009

Þriðjudagur, 20. 10. 09.

Fráleitasta framlag til Icesave-umræðunnar nú er að ræða orð, sem féllu um málið fyrir ári eða almennt, áður en Steingrímur J. og Jóhanna komu að því eftir 1. febrúar 2009 og fólu Svavari Gestssyni forystu fyrir samninganefndinni til að leiða Icesave til lykta. Augljóst var þá og allt fram að vandræðum ríkisstjórnarinnar með málið 5. júní síðastliðinn, að hún taldi sig vera með það á réttu róli, af því að hún hefði tekið það allt öðrum og betri tökum en gert hefði verið fram að 1. febrúar 2009.

Söguskýringar álitsgjafa stjórnarflokkanna og ESB-aðildarsinnanna Egils Helgasonar, Illuga Jökulssonar og Guðmundar Gunnarssonar breyta þessum bláköldu staðreyndum um ábyrgð Steingríms J., Jóhönnu og Svavars á málinu ekki. Þau sitja uppi með málið í núverandi mynd þess, hver sem forsagan var og hvernig sem á hana er litið.

Hér skal áréttuð sú skoðun, að hlutdrægni Egils Helgasonar í afstöðu hans til manna og málefna geri hann óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál, eigi þátturinn að lúta lögum um ríkisútvarpið. Lögleysan í kringum þátt Egils, verður ekki afsökuð með því, að hann sé einhver öryggisventill fyrir almenningsálitið, sem annars brytist fram á enn hroðalegri hátt en í nafnlausri illmælgi á bloggsíðu Egils. Hver hefur heimild til að leysa Egil Helgason undan lögum um ríkisútvarpið? Páll Magnússon, útvarpsstjóri? Sé svo, ætti hann að sýna eigendum RÚV hana.