21.8.2009

Föstudagur, 21. 08. 09.

Nú er verið að leggja mörg hundruð spurningar fyrir íslenska embættismenn og eiga svör þeirra að auðvelda framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) að leggja mat á aðildarumsókn Íslands. Jafnframt er boð látið berast, að ekki megi ráða fleira fólk til starfa í stjórnarráðinu. Ráðuneytum beri að halda sig innan ramma fjárlaga, sem verði enn þrengdir á árinu 2010.

Eitt er, að ríki sæki um aðild að ESB, annað að gera það á vitlausasta tíma fyrir ríkið sjálft og á óvissutímum innan ESB. Þennan tíma valdi alþingi undir forystu Samfylkingarinnar til að leggja inn umsókn Íslands.

Staðfest er í skýrslu Evrópunefndar frá mars 2007, að Íslendingar hafa ekki nýtt sér kosti EES-samningsins til áhrifa á gerðir og tilskipanir á EES-svæðinu. Til þess skorti fé og mannafla, meira að segja á meðan ríkissjóður blómstraði. Nú verða gerðar enn strangari kröfur til þátttöku Íslands eigi aðildarumsóknin að vera marktæk. Enn hefur ekki verið lögð fram áætlun um, hvernig staðið skuli að aðildarviðræðunum af Íslands hálfu og viðræðunefnd hefur ekki verið skipuð.

Um þetta gildir hið sama og um alltof margt hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að hin mikilvægustu mál eru unnin án fyrirhyggju. Sannast það vel í Icesave-málinu, þar sem engin samstaða er um túlkun á því, sem alþingi er að samþykkja, þótt hið óljósa orðalag hafi dugað til að sameina stjórnarflokkana á bakvið málið.

Óskiljanlegt er, hvers vegna stjórnarandstaðan sameinast ekki um að láta stjórnarflokkana bera ábyrgð á Icesave-samningum ríkisstjórnarinnar. Aðstoð stjórnarandstöðunnar hefur dugað til að samstaða náðist milli stjórnarflokkanna - snerist hjálparstarfið ekki um að gera Ögmundi Jónassyni kleift að styðja ríkisstjórn, þar sem hann á sjálfur sæti?

Mikill misskilningur er, að einhver styrkur felist í því út á við, að allir flokkar á þingi standi sameiginlega að niðurstöðu, sem menn síðan túlka út og suður.