18.7.2009

Laugardagur, 18. 07. 09.

Þegar fréttir berast um, að kristilegir (CSU) í Bæjaralandi leggist gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, er ástæðulaust að láta eins og þar sé um áhrifalitla hægrimenn að ræða. Völd CSU í Bæjaralandi eru ótvíræð og ítök þeirra meðal kristilegra demókrata mikil.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var fyrir fáeinum dögum á flokksþingi CSU og reyndi að draga úr gagnrýni þeirra á Evrópusambandið. Þýski stjórnlagadómstóllinn hefur nýlega kveðið upp þann dóm, að þýska sambandsþingið geti staðfest Lissabon-sáttmálann, en þó ekki fyrr en þingið hafi sett lög, sem mæla fyrir um skýran íhlutunarrétt þess til að tryggja þýska hagsmuni gegn Brussel-valdinu. Deilt er um, hve langt eigi að ganga í þeirri löggjöf og vill CSU, að Brussel-valdinu séu settar sem mestar skorður. Merkel vill milda þær kröfur og mun því leggja mikið á sig til að koma til móts við önnur sjónarmið CSU varðandi ESB. Raunar hefur hún sagt, að ekkert liggi á að stækka ESB meira.

Þótt menn ræði um hið bitlausa álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis sem vegvísi í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, er ekki að finna þar neina áætlun um, hvernig ætlunin er að vinna ríkisstjórnir ESB-landanna til stuðnings við aðild Íslands. Ætlar Jóhanna Sigurðardóttir að leggjast í víking til að ræða við stjórnarleiðtoga ríkjanna? Ef hún byrjar í London gæti hún rætt við Gordon Brown um Icesave í leiðinni.

Athyglisvert er, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, guðmóðir ESB-stefnu Samfylkingarinnar, lítur með ólund til þess, hve stuðningur við aðildarumsókn í þinginu var naumur, hún treystir ekki Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og vill halda honum frá ESB-málum, loks gagnrýnir hún aðferð Steingríms J. og Svavars Gestssonar við gerð Icesave-samninganna, ESB hefði átt að eiga aðild að þeim. Þetta eru kaldar kveðjur til vinstri-grænna.