16.7.2009

Fimmtudagur, 16. 07. 09.

Nýr áfangi hófst í umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) í dag, þegar alþingi samþykkti með 33 atkvæðum gegn 28, 2 sátu hjá, tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn. Verði gengið til viðræðna, eftir að ráðherraráðið hefur sent umsóknina til skoðunar hjá framkvæmdastjórninni og hún lagt mat á hana, munu þær taka nokkur misseri. Íslenska stjórnkerfið verður meira og minna undirlagt, ef sinna á málinu af alvöru, og milljörðum króna verður varið  til að framkvæma þessa tillögu, sem samþykkt var fyrir þá sök eina, að annars ryfi Samfylkingin stjórnarsamstarfið við vinstri-græna.

ESB-aðildarumsókn hefur aldrei verið samþykkt með svo litlum pólitískum stuðningi. Haldi einhver, að nú hverfi málið af hinum pólitíska vettvangi og stjórnmálaumræður geti farið að snúast um eitthvað annað, er það hinn mesti misskilningur.

Vegna framgöngu embættismanna utanríkisráðuneytisins í aðdraganda samþykktarinnar og leyndarhyggju þeirra í málinu, er full ástæða til að taka öllu, sem frá þeim kemur, af mikilli varúð og með fyrirvara. Hættan er sú, að þeir hafi samið við sjálfa sig um þá niðurstöðu, sem þeim þykir líklegast að falli að óskum Brussel-valdsins, áður en lagt er af stað. Margt í áliti meirihluta utanríkismálanefndar bendir til, að svo sé.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, verður í forsæti utanríkisráðherrafundar ESB-ríkjanna mánudaginn 27. júlí, þegar Össur Skarphéðinsson ætlar að afhenda umsóknina. Bildt segir á vefsíðu sinni í dag:

„Per telefon får jag beskedet att Alltinget i Island nu beslutat att landet skall ansöka om medlemsskap i Europeiska Unionen.

Självfallet har vi anledning att välkomna detta. Som ordförandeland kommer vi att se till att denna ansökan nu hanteras på ett korrekt sätt.

Nu bär det av till middag.“

Hér fer ekkert á milli mála: Bildt fagnar, að hafa fengið í síma skilaboð um, að alþingi hafi samþykkt aðildarumsókn og hann segist ætla að sjá til þess, að hún verði afgreidd á réttan hátt. Spurningin er þessi: Sagði sá, sem hringdi í Bildt, honum frá því, hve Össur verður með veikan pólitískan stuðning, þegar þeir hittast í Brussel?

Frá því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti ályktun sína um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu hafa ESB-fjölmiðlar og ESB-álitsgjafar ráðist á hana og útmálað á hinn versta veg. Við atkvæðagreiðslu á þingi í dag var hún felld með minnsta hugsanlega mun 32:30 og þingmenn allra flokka nema Samfylkingar lögðu henni lið. Þetta sýnir, að Bjarni Benediktsson og félagar hans í þingflokki sjálfstæðismanna hafa haldið vel á málstað sínum. ESB-fjölmiðlarnir láta þessa auðvitað ekki getið.