20.6.2009

Laugardagur, 20. 06. 09.

Spenna magnast enn í viðræðum aðila vinnumarkaðarins sín á milli og við stjórnvöld. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir málið á örlagastigi, því að atvinnurekendur verði að segja upp samningum frá 1. júlí náist ekki viðunandi niðurstaða.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, er ötull bloggari og segir á síðu sinni 20. júní:

„Styrking krónunnar og gengisstöðugleiki á að vera grundvallaratriði í þeim aðgerðum framundan. EES- samningurinn er lamaður á sviði fjármagnsflutninga með skelfilegum áhrifum á hagkerfið á Íslandi, það verður að leysa. Minnsta áhættan og mesti ávinningurinn er að láta reyna á samninga við ESB og Seðlabanka Evrópu. Þetta hefur komið fram hjá aðilum vinnumarkaðsins og þar hefur komið fram eindreginn vilji til aðildar að heildarsamningum, sem er mikilvægt framlag í komandi samningum við ESB.“

Erfitt er að skilja þessi orð Guðmundar, sem er ákafur stuðningsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu, á annan veg en þann, að við lausn kjaramála eigi að hafa ESB-aðild að leiðarljósi, enda vilji allir, sem standa að samningsgerðinni, það er ríkisstjórn, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur Ísland í ESB.

Alþýðusamband Íslands gekk í Evrópusambandið fyrir nokkrum árum, ríkisstjórnin vill aðildarviðræður. Þótt Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), og Vihjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri samtakanna, vilji Ísland í Evrópusambandið, er aðild ekki stefnumál SA. Kannski verður það kynnt næstu daga, að gangi Ísland í Evrópusambandið leysist allar kjaradeilur? Það yrði svo sem í samræmi við annað blekkingartal í tengslum við hagsmuni Íslands og aðild að Evrópusambandinu.