6.6.2009

Laugardagur, 06. 06. 09.

Klukkan 08.00 sótti ég messu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði og ræddi síðan við pólskan blaðamann, sem þar var og vildi hitta mig að ábendingu nunnanna. Viðtal mitt við hann og bandaríska Harvardprófessorinn Richard Rosecranse í gær sýna mér, að viðhorfið til Íslands er allt annað nú en á síðasta hausti, þegar fréttirnar af hruninu voru sem hæstar. 

Ákvörðunin um að ríkið eignaðist bankana og framkvæmd hennar þykir forvitnileg en ekki ámælisverð. Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði 2008, var í Hardtalk á BBC í vikunni og sagði, að Bandaríkjastjórn hefði frekar átt að eignast bandaríska banka en leggja þeim til stórfé og skilja eftir í höndum eigenda sinna.

Augljóst er, að ESB-aðildarsinnum á Íslandi er verst við tvennt: 1. að rætt sé um gjaldmiðilsskipti án ESB-aðildar; 2. að bent sé á, að ESB-valdið í Brussel lagðist á sveif með Bretum og Hollendingum til að knýja fram pólitíska lausn á ICESAVE-deilunni í stað þess að láta óhlutdræga dómara fjalla um málið.

Í báðum tilvikum láta aðildarsinnar hjá líða að leita lausna með sérhagsmuni Íslands í huga á grundvelli EES-réttar. Þeir kjósa frekar að beygja sig undir boð og bönn frá Brussel. Málsvarar þessarar stefnu eru hinir sömu og vilja opið umboð til aðildarviðræðna við ESB - nú að fyrirmynd frá Möltu.