1.4.2009

Miðvikudagur, 01. 04. 09.

Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til 11. fundar klukkan 12.00. Engir gestir voru boðaðir á fundinn og því var hann ætlaður nefndarmönnum til samræðu. Strax í upphafi fundar gat Valgerður Sverrisdóttir, nefndarformaður, þess, að hún ætlaði að ljúka störfum nefndarinnar á þessum fundi.

Eftir að ég hafði gert grein fyrir viðhorfum okkar sjálfstæðismanna til samkomulags í nefndinni, var augljóst, að allt annað vakti fyrir Valgerði en ræða málið til hlítar með samkomulag að leiðarljósi, henni var mest í mun að ljúka fundinum, hvað sem hver sagði og rökin voru dæmalaus „af því bara“ rök. Ég tel, að þessi asi hafi byggst á ótta Valgerðar við, að óskamál hennar, að svipta Alþingi valdi til að breyta stjórnarskránni, yrði fyrst til að hverfa, ef nýr meirihluti myndaðist í nefndinni. Stjórnarliðar telja sig bundna af loforði við framsóknarmenn um þetta stjórnlagaþing, þótt augljóst sé, að þeim er það í raun þvert um geð. Að ákvæðið sé enn inni í frumvarpinu minnir helst á eltingaleik ráðherra í Ísrael við flokka sérvitringa á Knesset, þingi Ísraels, til að halda völdum. Allur heimurinn hefur oftar en einu sinni fylgst með slíkum eltingaleik af forundran.

Í upphafi þingfundar lýsti ég niðurstöðu í sérnefndinni og harmaði, að ekki skyldi reynt til þrautar að ná  þar sáttum. Sé litið 80 ár aftur í tímann, er þetta í þriðja sinn, sem glímt er við afgreiðslu á stjórnarskrárbreytingu í þinginu án samkomulags allra flokka. 1934 og 1959 skipaði Framsóknarflokkurinn sér gegn breytingu á kjördæmaskipan, enda var hún gerð til að jafna kosningarétt, sem jafnframt dró úr forskoti Framsóknarflokksins í krafti ólýðræðislegra reglna. Ég man vel eftir hinum hatrömmu deilum um málið 1959.

Að bera þessi tvö sögulegu tilvik við það, sem er að gerast núna, stenst ekki og þau geta ekki orðið framsóknarmönnum nein afsökun fyrir þeirri einstefnu, sem þeir hafa tekið. Væri málið ekki jafnalvarlegt og raun er, mætti hlæja að því, hvernig þingmenn vinstri-grænna og Samfylkingar láta framsóknarmaddömuna leiða sig í þessu máli. Alvarleikinn byggist á því, að hér er flausturslega og illa staðið að því að breyta stjórnarskránni auk þess sem verið að skapa nýtt og hættulegt fordæmi, sem getur leitt til enn meira ósættis, þegar fram líða stundir.

Það er einkennileg stefna við lagasetningu að líta þannig á, að skynsamlegt sé að stunda hana undir þeim formerkjum að „gefa“ einstökum þingmönnum afgreiðslu á einhverjum gælumálum þeirra og hundsa við það allar almennar leikreglur. Engu er líkara en nú eigi að „gefa“ Valgerði Sverrisdóttur stjórnarskrárbreytingu, af því að hún er að hætta á þingi. Til að hafa Atla Gíslason, þingmann vinstri-grænna, góðan, var frumvarpi hans um vændi böðlað athugunarlaust úr allsherjarnefnd þingsins og virðist eiga að leggja allt kapp á að samþykkja það fyrir þinglok.

 

Atli Gíslason segir okkur sjálfstæðismenn óttast vilja fólksins og þess vegna styöjum við ekki þessar breytingar á stjórnarskránni. Atli veit vel, að hann fer hér með rangt mál. Við viljum breyta stjórnarskránni á þann veg, að lokaniðurstaða um breytinguna fáist í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við viljum hins vegar ekki svipta alþingi stjórnarskrárvaldinu. Við getum samþykkt tillögu um ráðgefandi stjórnlagaþing.