11.1.2009 18:20

Sunnudagur, 11. 01. 09.

Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræði-prófessor, heldur áfram að ræða íslenska stjórnsýslu eins og hér eigi að gilda sömu reglur og í öðrum löndum, eða einhverju öðru landi. Hvaða landi? Það væri gott, að Gunnar Helgi nefndi kvarðann, sem hann vill nota um íslenska stjórnsýslu, úr því að ekki er unnt að dæma hana á eigin forsendum í ljósi sögulegrar og lagalegrar þróunar hér á landi.

Nú keppist fréttastofa RÚV við að gera því skóna, að innan ríkisstjórnarinnar ríki ágreiningur um afstöðu til innrásar Ísraela inn á Gaza. Ég hef ekki orðið var við þann ágreining og sit þó í ríkisstjórninni. Utanríkisráðherra kemur fram fyrir hönd íslenskra stjórnvalda inn á við og út á við í þessu máli.

Gunnar Helgi nefnir dæmi frá Svíþjóð. Þar starfar ríkisstjórnin hins vegar eins og nefnd. Það gerir hún ekki hér á landi. Hér er hver ráðherra ábyrgur fyrir sinn málaflokk. Vilji menn breyta því, þarf meira til en álit Gunnars Helga.

Hann nefnir einnig dæmi frá Bretlandi, þar sem stjórnarhættir eru með sínum svip og eins-flokksstjórn er regla undir forystu forsætisráðherra, sem er ótvíræður flokkspólitískur leiðtogi allrar ríkisstjórnarinnar. Hér er reglan hins vegar samsteypustjórn enda kosningakerfi allt annað en í Brelandi, þar sem beinlínis er markmið, að kjósendur velji sér stjórn eins flokks, sem kalla má til ábyrgðar í næstu kosningum.