26.10.2008 18:10

Sunnudagur, 26. 10. 08.

Í sundi snemma í morgun hitti ég glöggan mann, sem sagðist hafa séð þau feðginin Kolfinnu og Jón Baldvin Hannibalsson við mótmælaiðju sína við ráðherrabústaðinn í sjónvarpsstöðinni BBC World þá fyrr um morguninn. Þykja það tíðindi víðar en hér, að Jón Baldvin hrópi á nýja tíma á þessum tröppum. Vegna skorts á myndefni til að setja með fréttum héðan, áttu fámenn mótmælin og fánabrennur greiða leið á erlendan fjölmiðlamarkað, þótt myndirnar gefi síður en svo rétta mynd af því, hvernig íslenska þjóðin bregst við erfiðleikum sínum.

Á mbl.is má lesa síðdegis í dag: „Mér finnst okkar norrænu kollegar vera fyrst að átta sig núna hvað þetta er alvarleg aðstaða. Hvað þetta geti haft mikið í för með sér fyrir íslenska þjóð. Og mikilvægi þess að finna heildstæða lausn á þessu máli,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sem í dag ávarpaði ráðstefnu þar sem fjallað var um norrænu víddina í Evrópusamstarfinu.“ 

Í lok fréttarinnar segir: „Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, var viðstödd ráðstefnuna og að sögn Árna Páls styður hún ekki aðgerðir bresku ríkisstjórnarinnar.“

Allt lofar þetta góðu um framgang íslensks málstaðar á erlendum vettvangi og hughreystandi að fá þessar fréttir um að nú sé Árni Páll að koma áhrifafólki í skilning um stöðu okkar. Hætta er þó á því, að áhugi erlendra fjölmiðla sé meiri á tröppuhrópum Jóns Baldvins í loðfeldinum en upplýsandi ræðum Árna Páls.

Áhyggjur vekur, hve erlendar fréttir fá lítið rými í íslenskum fjölmiðlum. Metnaðarskortur á því sviði leggst eins og farg á fjölmiðlun auk þess sem hún þrengir sjónarhorn, þegar alþjóðastraumar skipta þjóðina meiru en nokkru sinni fyrr.