24.10.2008 20:38

Föstudagur, 24.10.08.

Í dag var tilkynnt, að sameiginleg niðurstaða hefði náðst í viðræðum fulltrúa ríkisstjórnarinnar og alþjóðagjaldeyrissjóðsins IMF um hvernig unnt yrði að standa að því, að Ísland fengi tveggja milljarða dollara lán frá sjóðnum. Ríkisstjórnin kom saman klukkan 14.00 í ráðherrabústaðnum og samþykkti tillögu forsætisráðherra um þetta efni. Áður hafði niðurstaðan verið rædd við aðila vinnumarkaðarins, stjórnarandstöðu og í utanríkismálanefnd.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, kynntu niðurstöðuna á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfundinn og klukkan 15.00 kynntu fulltrúar IMF hana í húsakynnum ríkissáttasemjara, en Ásmundur Stefánsson, fráfarandi ríkissáttasemjari, er forsætisráðherra til aðstoðar við samhæfingu og stjórn viðræðna.

Niðurstaðan ætti að auðvelda samstarf við ríkisstjórnir, sem hafa lýst áhuga á að leggja okkur lið við að komast út úr gjaldeyrisvandanum. Með þessu er stigið markvert skref út úr bankahruninu en ljóst er, að ferðin öll verður erfið og sársaukafull fyrir marga.

Þingflokkur sjálfstæðismanna veitti Geir H. Haarde umboð fyrr í vikunni til að ljúka málum gagnvart IMF með fyrirvara um, að lyktirnar leiddu ekki til samþykkis á afarkostum Breta. Þingflokkurinn kom saman klukkan 16.00 og þar voru atburðir dagsins ræddir en Ásmundur Stefánsson sat hluta fundarins.

Víðar en hér á landi ræða menn nauðsyn þess að endurskoða reglur um fjármálakerfi til að tryggja eftirlit með því betur. Fyrrverandi yfirmaður breska fjármálaeftirlitsins telur, að breska ríkisstjórnin hafi beitt Íslendinga rangindum, eins og kemur fram í The Daily Telegraph.

 

 

 

 

Sir Howard Davies, fyrrverandi yfirmaður breska fjármálaráðuneytisins, hefur gagnrýnt bresku ríkisstjórnina fyrir að vilja bæta eigin stöðu á kostnað Íslendinga eða á ensku „attacked the Britain's "beggar-thy-neighbour" behaviour towards Icelandic banks“ eins og segir í The Daily Telegraph í dag.

Sir Howard er nú forstjóri The London School of Economics og lét fyrrgreind ummæli falla í ræðu í Cheung Kong viðskiptaháskólanum í Peking. Í The Daily Telegraph er þetta haft eftir honum:

„In Europe we had individual governments taking steps in a crisis that were clearly beggar-thy-neighbour solutions. You can accuse the Irish government. You can accuse the British government of that over Iceland.“

Hvatti hann til þess að komið yrði á fót nýjum og sannarlega alþjóðlegum eftirlitsstofnunum, auka yrði lögheimildir þessara stofnana og setja alþjóðareglur. Núgildandi reglur næðu til ástands eins og það var en ekki eins og það er.