3.10.2008 20:59

Föstudagur, 03. 10. 08.

Björn Ingi Hrafnsson, markaðsritstjóri Fréttablaðsins, ritaði forsíðufrétt blaðsins í gær um, að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefði nefnt þjóðstjórn á fundi ríkisstjórnarinnar þriðjudaginn 30. september og einnig á öðrum fundi. Í kvöld sagði Björn Ingi frá því í Íslandi í dag á Stöð 2, að hann hefði þetta frá heimildum innan ríkisstjórnarinnar. Fyrir sérhverja ríkisstjórn er alvarlegt, ef ekki er unnt að ræða þar mál milli manna eða við þá, sem koma á hennar fund, án þess að blaðamönnum sé sagt frá því, sem á fundinum gerist. Miðað við andann í stjórnarsamstarfinu þykir mér með nokkrum ólíkindum, að Björn Ingi fari með rétt mál um heimild sína fyrir þessari frétt.

Jónas H. Haralz sagði í Spegli RÚV í kvöld, að í sinni tíð sem efnahagsráðgjafi hefði tíminn frá 1967 til 1969 verið hinn erfiðasti. Þá hefði undirstaða efnahagsstarfsemi þjóðarinnar hrunið. Nú væri yfirbyggingin í hættu.

Ég man vel þessa tíma. Þá taldi faðir minn, að ástandið kynni að kalla á þjóðstjórn, en úr henni varð ekki og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks leiddi þjóðina í gegnum vandann og lagði grunn að endurnýjun hagkerfisins, sem skilaði betri lífskjörum fyrir alla á undraskömmum tíma.

Að menn velti fyrir sér þjóðstjórn hátt og í hljóði er frekar til marks um, að þeir telji brýnt að samhæfa alla krafta þjóðarinnar, pólitíska sem aðra, en þeir sjái slíka stjórn sem einhverja töfralausn á vandanum - ég er þeirrar skoðunar, að svo yrði ekki við núverandi aðstæður.

Forsíðu nýjasta heftis The Economist prýðir mynd af manni, sem stendur fremst á sprunginni bjargbrún og horfir ofan í hyldýpið og fyrirsögnin er: World on the edge. Þetta er einnig fyrirsögn aðalleiðara blaðsins og þar er ein millifyrirsögnin: What's the Icelandic for "domino"? Með spurningunni er vísað þess, hve margir bankar hafa lent í vandræðum og þurft opinbera aðstoð undanfarið, þar á meðal hafi Ísland bjargað Glitni. Og á bls. 69 segir um þá björgun: The Icelandic government has taken a 75% stake in Glitnir, a bank with outrageous reliance on gummed-up wholesale funding markets. Ég ætla ekki að íslenska þessa döpru setningu.