19.9.2008 21:55

Föstudagur, 19. 09. 08.

Í dag kl. 10.30 var haldinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum - hinn 400. frá því að lýðveldið var stofnað. Þessir fundir voru tíðir í forsetatíð Sveins Björnssonar og var þá fleira tekið þar til umræðu en nú er gert, þegar bornar eru upp tillögur til forseta til endurstaðfestingar.

Alþjóðahermálastofnunin í London (IISS) hefur sent frá sér ritið Strategic Survey 2008. Þar er lýst hernaðarlegri þróun í heiminum. Ítarlega er fjallað um hernaðarlega þætti, orkunýtingu og siglingar í norðurhöfum. Minnst er á Ísland og meðal annars sagt:

„However, the strategic importance of Iceland will be re-emphasised by the growth in shipping of cargo, oil and gas transport in and around Icelandic waters. Whatever lies behind the change in Russian operational patterns, it is causing uncertainty and highlighting the possibilty of military posturing amidst the scramble for Arctic energy resources. Iceland will be torn between the benefits that oil and gas transport and new shipping lanes could bring and the risk of negative effects on its security. Risk management will therefore be an important element of domestic debate on security issues.“

Ég er sammála þessu mati og nægir í því efni að benda á fyrirlestra, sem ég hef flutt um breytingar hér í norðurhöfum austan hafs og vestan og birtar hafa verið hér á síðunni frá því í september 2007.

Erna Solberg, formaður Hægri flokksins, gagnrýnir Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, fyrir að sýna Rússum of mikla mildi. Störe hafi ekki viljað taka undir ályktun utanríkisráðherra Evrópusambandslandanna frá 26. ágúst sl. þegar þeir „fordæmdu harðlega“ viðurkenningu Rússlands á Suður-Ossetiu og Abkhasíu, sem sögðu sig úr lögum við Georgíu. Þess í stað lét Störe nægja að „harma“ viðurkenninguna. Leiðtogar Evrópusambandslandanna fordæmdu viðurkenningu Rússa í ályktun sinni 1. september sl.

Solberg segir, að með þessu gefi norska ríkisstjórnin rússneskum stjórnvöldum til kynna, að Vesturlönd séu ekki einhuga. Rússar telji sig þess vegna hafa meira svigrúm til ögrana en ella væri. Telur Solberg, að sem lítilli þjóð sé Norðmönnum skylt að standa vörð um rétt smáríkja til að ráða sér sjálf. Það sé ekki skynsamleg stefna Noregs að draga úr gagnrýni á Rússa í þessum efnum.

Störe segist ekki sammála Solberg um, að Norðmenn standi frammi fyrir ógn af hálfu Rússa. Norsk stjórnvöld verði að ganga fram af festu gagnvart nágranna sínum, en jafnframt á ábyrgan hátt.