18.9.2008 20:36

Fimmtudagur, 18. 09. 08.

Seðlabankar víða um heim hafa gripið til sinna ráða í dag til að sporna gegn öfugþróun í fjármálaheiminum. Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, gerði það með eftirminnilegum hætti í viðtali við Kristján Má Unnarsson í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld.

Margt var vel sagt og skýrt í þessu tímabæra viðtali. Davíð var ómyrkur í máli um talsmenn evruaðildar og kallaði þá lýðskrumara. Í Kastljósi kvöldsins taldi Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, að Davíð vísaði til framsóknarmanna. Samfylkingin hefði svo lengi haft ESB-aðild á stefnuskrá sinni.

Merkilegast var, hve fast Davíð kvað að orði, þegar hann vék að því að greiningardeild Glitnis hefði talað um dýrt „Íslandsálag“ á erlend lán til Íslendinga. Taldi Davíð þetta ósvífinn stimpil á landið, sem ætti það ekki skilið, þegar litið væri til skuldlauss ríkissjóðs. Það væri framganga banka við lántöku, sem leiddi til þessa álags. Þeir ættu ekki að snúa því upp á landið.

Ég ætla ekki að endursegja þetta langa og ítarlega samtal en óska Stöð 2 til hamingju með að fá Davíð til viðræðu og hve upplýsandi samtalið var, enda var Kristján Már vel undir það búinn og gaf Davíð færi á að svara.

Viðbrögð álitselítunnar með ESB-aðild sem lausn á öllum vanda eru þau, að Davíð sé að kveðja seðlabankann með viðtalinu. Þetta sýnir best, hve þessi elíta er oft í litlum tengslum við raunveruleikann og kýs helst að lifa í eilífum spuna.

Bergsteinn á ritstjórn Fréttablaðsins segir í ritstjórnardálki í dag, að ég hafi verið örlítið ónákvæmur í frásögn minni hér í gær af orðaskiptum okkar Steingríms J. um kalda stríðið og síma Ragnars Arnalds. Bergsteinn segir:

„Steingrímur spurði hvort Björn teldi að það hefði verið eðlilegt tilefni til að hlera símann hjá Ragnari árið 1968. Gildir þá einu hvort síminn var í raun hleraður eða einungis veitt til þess heimild þar sem ásetningurinn var til staðar. Björn gerði enga tilraun til að svara því.“

Þetta er ekki nákvæmt hjá Bergsteini. Ég sagði, að engum aðdraganda þess, að lögregla óskaði eftir heimild til hlerunar, hefði verið betur lýst en einmitt vegna mótmælanna gegn NATO-fundinum 1968. Fyrr hafði ég lýst skoðun minni á því, hvers vegna símanúmer stjórnmálamanna voru á lista lögreglunnar.