13.9.2008 19:03

Laugardagur, 13. 09. 08

Í Fréttablaðið í dag ritar Klemens Ó. Þrastarson frétt undir fyrirsögninni: Voru skýr og klár mistök starfsmanns. Lögreglustjóri segir einstakling innan lögreglu haf gert mistök sem ollu því að eftirlýstur maður slapp úr landi. „Ráðherra ber ríka ábyrgð,“ segir prófessor[Sigurður Líndal].

Í fréttinni er rætt um, hverju það sæti, að Ivan Kovulenko, eftirlýstur meintur ofbeldismaður, hafi sloppið óáreittur í gegnum landamæraeftirlit í Leifsstöð og komist til London. Stefán Eíriksson lögreglustjóri segir, að fyrir mistök hafi landamæralögreglu á Suðurnesjum ekki verið sent nafn mannsins.

Þá segir í fréttinni: „Björn Bjarnason dómsmálaráðherra svarar því ekki hvernig ábyrgð skuli háttað í slíkum málum. Því var hann spurður hvort ráðherra sjálfur teldi sig bera ábyrgð á mistökum lögreglu. Björn svavar því ekki heldur, en furðar sig á því að blaðamenn þurfi að spryja svona; þeir ættu að þekkja laganna bókstaf.“

Í gær fékk ég tvö tölvubréf frá Klemens.

Svar mitt við hinu fyrra var á þennan veg:

Sæll Klemens,

lögreglusamstarf Evrópuríkja, sem stöðugt er að aukast, miðar einmitt að því að menn sleppi ekki undan armi laganna, þótt þeir fari frá einu Evrópulandi til annars.

Þú verður að ræða við lögreglustjóra um hvernig samstarfi þeirra er háttað í tilvikum sem þessum.

Sífellt er unnið að því innan réttarvörslunnar að þétta það net, sem hún þarf að ráða yfir, til að ná sem bestum árangri.

Með góðri kveðju

Björn Bjarnason

Svar mitt við hinu síðara var þetta:

Sæll Klemens,

ríkislögreglustjóri hefur nýlega sett reglur um, hvernig haga skuli eftirliti og tilkynningum vegna manna í farbanni í því skyni að tryggja með skýrum verklagsreglum, að þeir komist ekki úr landi. Samskonar aðferðum ber að beita, þegar um eftirlýsta menn er að ræða að breyttu breytanda.

Ábyrgð vegna mála af þessu tagi er hin sama og almennt gildir að stjórnsýslurétti, ég hélt, að það lægi í augum uppi og þyrfti ekki að skýra út fyrir rannsóknarblaðamanni. Ritstjóri Fréttablaðsins getur auðveldlega skýrt inntak þeirrar ábyrgðar fyrir þér.

Með góðri kveðju

Björn Bjarnason

Ég læt lesendum eftir að leggja dóm á hvernig Klemens flytur lesendum sínum þessi svör mín. Skyldi mega flokka það undir mistök? Á hvers ábyrgð?