4.9.2008 22:32

Fimmtudagur, 04. 09. 08.

Klukkan 17.00 var ég í Háskólanum í Reykjavík til að fagna 10 ára afmæli skólans. Mér var sýnd sú vinsemd að heiðra mig í tilefni af þessum tímamótum fyrir að beita mér fyrir löggjöfinni, sem varð forsenda fyrir starfsemi skólans. Guðfinna Bjarnadóttir, fyrsti rektor skólans, var einnig heiðruð fyrir störf sín í þágu skólans.

Á sínum tíma þótti síður en svo sjálfsagt að móta löggjöf um heimild til einkareksturs á háskólum. Ríkisstjórn og alþimgi samþykktu hins vegar tillögu mína um það efni. Lögin ollu þáttaskilum og nú er Ísland með hæsta hlutfall námsmanna á háskólastigi á Norðurlöndum, þótt víðar væri leitað.

1998 voru 300 nemendur í HR en nú eru þeir 3000. Frelsi í háskólarekstri hefur ekki aðeins leitt til fleiri háskóla heldur einnig valdið byltingu í þeim skólum, sem fyrir voru.

Í afmælishófinu var sýnt myndband með 10 ára afburðanemendum, sem sögðu frá framtíðaráformum sínum. Einn þeirra sagðist stefna á hraðbraut í framhaldsskóla, svo að hann gæti komist sem fyrst í háskóla, orðið doktor og síðan prófessor. Þá minntist ég þess af hve mikilli tortryggni tillögu minni um hraðbrautina var tekið á sínum tíma.

Nú dettur engum stjórnmálamanni í hug að gagnrýna einkarekna háskóla eða hraðbraut og annars konar einkaframtak á framhaldsskólastigi. Dapurlegt er, að ekki hafi orðið sama þróun í grunnskólum. Meginástæðan fyrir því er, að R-listinn tók við flestum grunnskólum við flutning þeirra frá ríkinu og innan þess lista höfðu menn ofurtrú á opinberum rekstri.

Ók vestur að Búðum á Snæfellsnesi vegna fundarhalda. Ég hef ekki áður gist á þessu glæsilega hóteli eða notið hins góða matar, sem hér er í boði.