3.9.2008 20:21

Miðvikudagur, 03. 09. 08.

Árvekni tollvarða á Seyðisfirði með aðstoð lögreglu og leitarhunda hefur enn skilað miklum árangri, þegar fréttir berast um, að fundist hafi mikið magn af fíkniefnum hjá farþega Norrænu við komu frá Færeyjum. Vel að verki staðið!

Á mbl.is má í dag lesa:

„Miguel Ángel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, telur evruupptöku Íslendinga án aðildar að Evrópusambandinu ekki koma til greina. Ráðherrann, sem er nú í opinberri heimsókn til Íslands, telur Íslendinga ekki þurfa að óttast að missa yfirráðin yfir fiskimiðunum við inngöngu í ESB. Hann lýsir jafnframt yfir stuðningi við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Moratinos átti í dag fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og Geir Haarde forsætisráðherra, en þetta er í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra Spánar kemur í opinberra heimsókn til landsins.

Aðspurður um hvers vegna hann teldi Íslendinga ekki geta tekið upp evruna án aðildarviðræðna vísaði Moratinos til þeirra orða Jean-Claude Trichet, bankastjóra evrópska seðlabankans, að slíkt skref væri ekki raunhæft.

Moratinos er jafnframt þeirrar hyggju að evruupptaka Spánverja hefði reynst farsæl og að gjaldmiðillinn verndaði hagkerfin fyrir miklum utanaðkomandi sveiflum, sem jafnan væri ókostur smærri gjaldmiðla.“

Við lestur þessarar fréttar vakna ýmsar spurningar. Til dæmis þessi: Hver hefur lagt þetta mál fyrir Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra Evrulands? Með hvaða rökum? Telur hann ekki heimild til að semja við Ísland á grundvelli 111. gr. stofnsáttmála ESB? Eða er hann almennt á móti því að semja við Ísland?

Spænski utanríkisráðherrann gefur greinilega ekki mikið fyrir hina þungu gagnrýni innan Spánar á Trichet, seðlabankastjóra. Trichet segir, að sér beri ekki frekar að taka tillit til vandræða á Spáni en seðlabankastjóra Bandaríkjanna til vanda í Texas. Trichet yrði áreiðanlega enn skeytingarlausari um efnahagsmál á Íslandi.

Þegar rætt er um inngöngu í Evrulandið, má ekki gleyma því, að þaðan er engin útgönguleið.