1.9.2008 15:39

Mánudagur, 01. 09. 08.

Ókum síðdegis frá Kaupmannahöfn yfir Eyrarsund til strandbæjarins Ystad á Skáni, þar sem haldinn verður dómsmálaráðherrafundur Norðurlanda. Ráðherrarnir hittust allir á Hilton hótelinu á Kastrup-flugvelli og þaðan ókum við saman í rútu. Ferðin til Ystad tók um klukkustund.

Það blæs hér við ströndina og hressandi að sitja við sjávarniðinn.

Ystad er heimabær leynilögreglumannsins Kurts Wallanders, sem Henning Mankell hefur gert heimsfrægan í bókum sínum, auk þess sem hann er þekktur í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Nyhedsavisen var blásinn af í dag, fría Baugsblaðið í Danmörku, sem náði til 600 þúsund lesenda, þegar lokað var vegna fjárskorts. Útgáfa blaðsins hófst 17. ágúst 2006 með miklum heitstrengingum um að ná í milljón lesendur, og að samskonar blöð yrðu gefin út víðar í Evrópu. Misheppnuð tilraun var gerð með tapi í Boston. Fagblaðið Journalisten telur, að útgáfa Nyhedsavisen hafi kostað eigendur þess 700 milljónir danskra króna um 12 milljarða íslenskra króna.

Berlingske Tidende segir í fétt um örlög Nyhedsavisen: „Dermed er den danske bladkrig, der har kostet bladbranchen halvanden milliard kroner, sluttet med dundrende fiasko og lommesmerter for alle deltagere“

Saga Nyhedsavisen vekur spurningar um viðskipavit þeirra, sem að því stóðu og hvert allir þeir fjármunir voru sóttir, sem runnu í þessa hít.