18.8.2008 0:27

Mánudagur, 18. 08. 08.

Ætti ég eftir að hlaupa 200 metra af 400 vildi ég heldur vera að minnka forskotið með auknum hraða en hægja á mér. Hanna Birna er í þessari stöðu gagnvart Degi B. Megi henni takast að ná fyrst í mark! Það yrði auk þess Reykvíkingum fyrir bestu.

Matthías Johannessen birtir á www.matthias.is dagbókarbrot. Þau eru svo krassandi, að eðlilegt væri fyrir fjölmiðla að kafa dýpra og kynna sér málið til hlítar. Þess í stað setjast menn eins og Hallgrímur Thorsteinsson í vandlætingarstólinn. Honum fer það illa.

Matthías er þaulvanur höfundur viðtala og ávann sér virðingu og traust sem slíkur. Hann hefur ávallt haft einstakt lag á að draga jafnframt upp mynd af viðmælendum sínum. Ég minnist þess frá unglingsárum, að Guðrúnu, ömmu minni, þótti nóg um bersögli Matthíasar í viðtölum undir samheitinu: Í fáum orðum sagt.

www.matthias.is rúmast ekki undir orðunum: Í fáum orðum sagt, en veldur enn ýmsum lesendum áhyggjum og kannski líka viðmælendum.