7.8.2008 20:54

Fimmtudagur, 07. 08. 08.

Flaug norður á Akureyri um hádegisbilið.

Lögreglustjórar frá Blönduósi, Bjarni Stefánsson, Sauðárkróki, Ríkarður Másson, Húsavík, Halldór Kristinsson og Akureyri, Björn Jósep Arnviðarson auk Haraldar Johannessens, ríkislögreglustjóra og mín rituðu undir samkomulag um samstarfsátak gegn fíkniefnum á Norðurlandi.

Samkomulagið miðar að stórauknu samstarfi norðlensku lögregluliðanna fjögurra. Komið verður á laggirnar sérstöku teymi þriggja lögreglumanna við rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri ásamt lögreglumanni með fíkniefnahund. Verða tveir lögreglumannanna í teyminu frá sérsveit ríkislögreglustjóra. Starfsstöð fíkniefnateymisins er í lögreglustöðinni á Akureyri en umboð þess nær til allra lögregluumdæmanna fjögurra á Norðurlandi. Með samstarfinu er stefnt að því að efla styrk og samtakamátt lögregluliðanna fjögurra og herða þannig baráttuna gegn innflutningi, dreifingu og neyslu fíkniefna.

Var þessi athöfn kl. 13. 30 í lögreglustöðinni en að henni lokinni eða klukkan 14.30 hófst önnur athöfn í þeim hluta lögreglustöðvarinnar, sem hýsir fangelsið. Þar bauð Páll Winkel, fangelsismálastjóri, okkur gesti velkomna í tilefni af því að nýtt og stærra fangelsi á Akureyri var formlega opnað. Fangar eru þar 10 en þeir voru á veiðum úti á Eyjafirði, á meðan þessi rúmlega klukkutíma athöfn fór fram.

Fangelsið er hið glæsilegasta. Byggt hefur verið lögreglustöðina og fellur nýbyggingin vel að því húsi, sem fyrir var, en það nýtist betur en áður fyrir lögregluna. Í þessari byggingu sannast, að vel er unnt að reka undir sama þaki starfsemi lögreglu og fangelsi, auk þess sem hvoru tveggja er inni í íbúðahverfi, án þess að valda nokkrum vandræðum.

Undarlegt er, að fjölmiðlamenn hafa gefið til kynna, að of vel sé búið að föngum á Akureyri og meira að segja er látið að því liggja, að refsing nái ekki tilgangi sínum, sé föngum búin nútímaleg aðstaða í húsbúnaði. Röksemdafærslan er dæmd til að leiða menn í ógöngur. Á að sníða öll fangelsi að hegningarhúsinu við Skólavörðustíg? Telja menn, að 19. aldar aðbúnaður fanga sé keppikefli nú á dögum? Ég er ekki þeirrar skoðunar frekar en banna eigi 21. aldar húsagerðarlist í götumynd Laugavegsins