19.4.2008 13:19

Laugardagur, 19. 04. 08.

Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur, er jafnan kallaður til skrafs og ráðagerða hjá fréttastofu hljóðvarps ríkisins, þegar henni finnst tímabært að gefa Sjálfstæðisflokknum ráð um, hvernig hann skuli haga stefnu sinni og störfum. Þetta gerðist enn og aftur í hádegisfréttum dagsins og snerist ráðgjöfin um REI-málið.

Birgir þekkir ekkert til innan veggja Sjálfstæðisflokksins og oft virðist hann ekki einu sinni hafa fyrir því að kynna sér stöðu mála innan flokksins, áður en segir álit sitt á henni.

Ég hef skrifað ítarlega um OR/REI/GGE málið og undrast, hvernig á því er haldið. Hef ég fært rök fyrir þeirri skoðun, að slík leyndarhyggja sé innbyggð í stjórnarhætti Orkuveitu Reykjavíkur, að borin von sé að óbreyttu, að tekið sé á málefnum fyrirtækisins eða undirfyrirtækja þess á þann veg, að sæmi fyrirtæki í opinberri eign.

Skörin er farin að færast upp í bekkinn, þegar Óskar Bergsson og aðrir framsóknarmenn kvarta undan því, að ekki séu lagðar fram nægilega miklar upplýsingar um skuldbindingar OR. Enginn stóð fastar gegn því en Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi framsóknarmanna, að miðla upplýsingum um OR til kjörinna fulltrúa, jafnvel stjórnarmanna í OR. Talaði hann eins og slík upplýsingagjöf væri hrein fásinna með hagsmuni OR að leiðarljósi.

Vandi OR og REI er ekki vandi sjálfstæðismanna einna í borgarstjórn heldur er þetta vandi allrar borgarstjórnarinnar. 100 daga stjórnin undir forystu Dags B. Eggertssonar, Svandísar Svavarsdóttur og Björns Inga Hrafnssonar skaut sér undan OR/REI málinu með því að setjast í þagnarbindindi, á meðan það væri til skoðunar. 100 daga skoðunin leiddi ekki til neinnar niðurstöðu.

Af því að meiri kröfur er unnt að gera til sjálfstæðismanna en annarra borgarfulltrúa er eðlilegt, að litið sé til þeirra um forystu til að leysa OR/REI málið með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi.  Sjálfstæðismenn skortir hins vegar afl í borgarstjórn til að standa einir að lausn málsins. Þeir hafa ekki heldur borið gæfu til að halda á málinu á nægilega traustvekjandi hátt. Lausnin er ekki á færi neins eins flokks í borgarstjórn. Á meðan borgarfulltrúar hafa ekki dug til að mynda neinn meiihluta um að sigla OR úr þessari villu er haldið áfram á ógæfubraut fyrir sjálfstæðismenn og alla aðra í borgarstjórn. 

Fórum klukkan 14.00 á tónleika kórs Menntaskólans við Hamrahlíð í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli.