11.4.2008 21:29

Föstudagur, 11. 04. 08.

Í dag er rétt ár liðið, frá því að Bjarni Torfason skar mig og læknaði í mér lungun. Þau hafa ekki brugðist mér síðan. Skurðurinn greri eðlilega, en farið var í gegnum bringubeinið. Enn finn ég stundum fiðring á skurðsvæðinu, einkum verði ég þreyttur.

Ég lét þess getið, eftir að ég hafði náð mér á strik, að viðgerðin á lungunum myndi auka mér orku. Þetta hefur gengið eftir. Ég er sannfærður um, að hægra lungað, sem tók að leka, hafi um nokkurt skeið, kannski árabil, legið ofan á þindinni í stað þess, að hún stækkaði það með togi við innöndun. Qi gong æfingarnar auðvelda mér að skynja breytinguna, sem hefur orðið að þessu leyti.

Við Gunnar Eyjólfsson ræddum í dag aðdraganda þess, að við tókum að iðka qi gong saman og ákváðum síðan að bjóða fleirum að slást í hópinn. Við hittumst seinni hluta níunda áratugarins á framsagnarnámskeiði, sem Gunnar leiddi en skipulagt var að frumkvæði Ingimundar Sigfússonar. Í lok eins tímans spurði ég Gunnar, hvort hann kynni qi gong. Hann játaði því, hafði kynnst því í leikarnámi sínu í London á fimmta áratugnum. Ég hafði þá kynnst qi gong á heilsubúgarði í Frakklandi.

Nokkrum árum síðar tókum við upp þráðinn með sameiginlegum æfingum. Þær hafa auðveldað mér að ná bata eftir uppskurðinn. Við Gunnar vitum, að qi gong hefur stuðlað að heilsubót hjá mörgum. Á hinn bóginn höfum við aldrei kynnt æfingarnar undir þeim formerkjum.