22.1.2008 21:41

Þriðjudagur, 22. 01. 08.

Flutti framsöguræður fyrir tveimur lagafrumvörpum á þingi í dag annars vegar um nálgunarbann og hins vegar um breytingar á útlendingalögum. Síðan voru flutt ýmis þingmannafrumvörp á verksviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis og tók ég þátt í umræðum um þau fram yfir kl. 19.00.

Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að halda á sínum málum, eftir að hafa dottið út úr meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og standa einnig utan ríkisstjórnar? Þetta hefur flokkurinn ekki reynt síðan 1994 og frá þeim tíma hefur Orkuveita Reykjavíkur verið nokkur þungamiðja í valdakerfi hans - að lokum varð Björn Ingi Hrafnsson að pólitískum ómerkingi vegna brölts í kringum hana.

Hugsjónir Framsóknarflokksins eru óljósar, svo að ekki sé meira sagt, og völdin orðin að engu. Fyrir hvað á að berjast? Helst má skilja, að sú ákvörðun á sínum tíma, að litgreina frambjóðendur Framsóknarflokksins til að ákvarða kjörþokka þeirra, hafi knúið flokkinn til að kosta föt á frambjóðendur. Hver gat ímyndað sér, að lokahnykkur í innanflokksátökum framsóknarmanna í Reykjavík snerist um fatareikninga? Klofinn flokkur af því tilefni þarf ekki hugsjónir til að þvælast fyrir sér.