21.1.2008 20:06

Mánudagur, 21. 01. 08.

Nýr meirihluti varð til í borgarstjórn Reykjavíkur í dag, þegar Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Frjálslynda flokksins, gekk til liðs við sjö borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ólafur F. tók fram í yfirlýsingu, sem hann las á blaðamannafundi klukkan 19.00 á Kjarvalsstöðum, að meirihlutinn mundi starfa út kjörtímabilið, það er til vors 2010. Ólafur F. verður borgarstjóri fyrri hluta tímans en Vilhjálmur Þ. Vílhjálmsson síðari hlutann, þeir skiptast jafnframt á að verða formenn borgarráðs. Borgarstjórn kemur saman til fundar fimmtudag 24. janúar og þá fara valdaskiptin fram.

Aldrei var nein samstaða innan þess hóps, sem myndaði meirihluta á rústum OR/REI fyrir 100 dögum og þar sem Dagur B. Eggertsson varð borgarstjóri. Hópurinn hefur ekki getað lagt fram málefnaskrá og lét reka á reiðanum í fjölda mála.

Framsóknarmenn hafa nú misst valdastöðu sína innan borgarstjórnar Reykjavíkur, en þar hafa þeir talið sig hafa tögl og hagldir síðan 1994. Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði grunn að valdaleysi sínu með svikum við Sjálfstæðisflokksins vegna OR/REI. Hann situr nú undir hörðum árásum innan eigin flokks vegna fatakaupa á kostnað flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar - í fréttum sjónvarps ríkisins var upplýst í kvöld, að þetta snerist um reikninga, sem nema um einni milljón króna. Björn Ingi sagðist í Kastljósi hafa keypt hluta af þessum fötum fyrir sjálfan sig.

Útför skákmeistarans Bobby Fischers fór fram í morgun í kyrrþey samkvæmt ósk hans í Laugardælakirkjugarði í Flóahreppi skammt frá Selfossi. Séra Jakob Rolland, prestur kaþólskra, jarðsöng.