2.1.2008 21:09

Miðvikudagur, 02. 01. 08.

Það eru víðar smíðuð nýyrði en í íslensku, þar á meðal á ensku en þar er nafnorðið commentariat að ryðja sér rúms um þann hóp manna, sem segir álit sitt á fréttum eða skýrir þær. Orðið er smíðað úr tveimur orðum commentator (álitsgjafi) og proletariat (öreigar). Fyrst birtist það opinberlega árið 1993 í grein í The Washington Post.

Til skýringar á orðinu er sagt, að það nái til dæmis til stjórnenda umræðuþátta og gesta þeirra, dálkahöfunda blaða og tímarita og pólitískra bloggara. Nú þarf að huga að íslensku nýyrði um þessa skoðanamótandi atvinnumenn - orðið álitsgjafi er hlutlaust miðað við broddinn í commentariat.