30.11.2007 17:34

Föstudagur, 30. 11. 07.

Eftir ríkisstjórnarfund óskuðu fréttakonur útvarps og sjónvarps ríkisins eftir viðtali við mig vegna fréttar í sjónvarpinu kvöldið áður um svonefnda „fangaflugvél" frá Bandaríkjunum. Ég gat ekki veitt þeim aðrar upplýsingar en þær, að vélin hefði verið skoðuð á venjubundinn hátt í samræmi við reglur við komu flugvéla frá ekki-Schengen-ríki, en vélin kom frá Bretlandi. Tveir tollverðir og lögreglumaður fóru um borð í vélina. Mér kom á óvart, að svo virtist sem fréttakonurnar teldu hér eitthvað óvenjulegt á ferð. Ég gat að sjálfsögðu ekki samsinnt því og taldi ekki ástæðu til að taka þátt í neinum vangaveltum um málið. Ég skýrði einnig frá því, að vegna komu þessarar vélar hefði ekki verið neitt samráð milli utanríkisráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Utanríkisráðuneytið á raunar ekki aðild að landamæravörslu heldur embættismenn á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis.

Í kvöldfréttum sjónvarpsins var látið í veðri vaka, að eitthvað grunsamlegt væri við, að fréttastofan teldi sig vita, að tveir menn hefðu verið um borð í vélinni en utanríkisráðherra segði þá hafa verið fimm. Fréttastofan fylgist ekki nægilega vel með, því að það var opinberlega staðfest í dag, að fimm menn hefðu verið um borð í vélinni og lögreglumaður skoðaði vegabréf þeirra allra. Hið skrýtna í málinu fer að verða, hvers vegna fréttastofa sjónvarpsins segir svona einkennilegar fréttir af því.

Klukkan 11.30 vorum við Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, í Þjóðmenningarhúsinu og rituðum undir samkomulag um samvinnu við kaup á björgunarþyrlum. Markar samningurinn tímamót í starfi Landhelgisgæslu Íslands og leggur grunn að endurnýjun þessa mikilvæga björgunarkosts hennar og auk þess nánu samstarfi við Norðmenn á sviði björgunarmála.