29.7.2007 21:12

Sunnudagur, 29. 07. 07.

Við ókum inn í rigningu uppúr hádeginu hér í Reykjavík úr glampandi morgunsól í Fljótshlíðinni, þar sem sjá mátti tugi húsbíla, hús- og tjaldvagna auk þess var töluverð umferð smávéla um flugvöllinn við Múlakot. Sumarblíðan í sveitinni iðaði sem sagt af mannlífi.

Í nýju hefti af tímaritinu Ský las ég smásöguna Skjólið eftir Ágúst Borgþór Sverrisson. Hann sýnir oft góða takta sem bloggari. Ég hafði gaman af sögunni. Ágúst Borgþór hefur boðað, að hann sendi frá sér skáldsögu nú í haust. Smásagan í Skýi vakti áhuga minn á að kynnast fleiru en bloggi Ágústs Borgþórs.

Í pistlinum í dag fjalla ég um baráttu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar fyrir lækkun skatta og vísa meðal annars á vefsíðu hans. Þar er mynd af honum með Margaret Thatcher. Í The Daily Telegraph  í gær var sagt frá því, að þeir, sem sækjast eftir framboði til forseta fyrir flokk repúblíkana í Bandaríkjunum, telji sér það til tekna að sitja fyrir með frú Thatcher og fari því í einskonar pílagrímsför til hennar í London. Rudy Guiliani mun hitta hana í september, en Fred Thompson, sem eru næstur Guiliani að vinsældum, þótt hann hafi ekki enn gefið kost á sér, hefur þegar látið mynda sig með frú Thatcher.