20.7.2007 22:33

Föstudagur, 20. 07. 07.

Hvaða uppnám ætli hefði orðið hér á landi, ef lögregla hefði í 16 mánuði rannsakað pólitíska greiðasemi stjórnmálaflokks fyrir styrki eða lán til kosningabaráttu, en saksóknari síðan ákveðið að ákæra ekki? Veðrið var svo vont í Bretlandi í dag, að kannski gáfu menn sér ekki tóm til að hrópa sig hása af hneykslan eða fárast yfir kostnaði við lögreglurannsóknina. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, var ánægður með niðurstöðuna, því að það hefði sett blett á leiðtogaferil hans í Verkamannaflokknum, ef ákært hefði verið, svo að ekki minnst á dóm gegn flokknum í málinu.

Jacques Chirac, fyrrverandi Frakklandsforseti, hefur verið yfirheyrður í því skyni að upplýsa, hvernig staðið var að því í borgarstjóratíð hans í París, að hafa erindreka flokks hans á launum hjá borginni. Þá kann forsetinn fyrrverandi að verða kallaður fyrir dómara til að skýra frá vitneskju sinni um Clearstream-hneykslið. Rannsóknin hefur tekið nýja stefnu, eftir að skoðað var efni, sem þurrkað hafði verið út af hörðum diski og í ljós kom, að Dominique de Villepin, þáverandi utanríkisráðherra og síðar forsætisráðherra, hafði ekki sagt rétt frá um aðild sína eða tengsl Chiracs. Hneykslið felst í því, að ranglega var gefið til kynna, að Nicolas Sarkozy hefði persónulega og leynilega hagnast á herskipasölu til Tævans.  Markmið uppspunans var að útiloka Sarkozy frá forsetaframboði.

Í kvöld voru tveir álitsgjafar kallaðir fyrir Helga Seljan í Kastljósi til að ræða fréttir vikunnar. Mér heyrðust aðeins tvö mál á dagskrá hjá Helga: spurningin um lokað rými eða ekki fyrir einkadans á Goldfinger og örlög Lúkasar, hunds á Akureyri.

Í vikunni fórst ein af fjórum þyrlum landhelgisgæslunnar og utanríkisráðherra hefur alla vikuna verið á ferðalagi um Ísrael og Palestínu auk þess sem Novator keypti Actavis og hart hefur verið deilt um matvælaverð.