1.6.2007 23:03

Föstudagur, 01. 06. 07.

Ellert B. Schram segir í DV, að hann hann hafi flúið frjálshyggjuna og skýrir þannig brotthvarf sitt úr Sjálfstæðisflokknum. Nú hefur verið mynduð frjálslynd umbótastjórn með stuðningi Ellerts. Stjórn, sem fellur undir Blairisma og þar með frjálshyggju að skilningi sósíalista.

Ellert flýr ekki frjálshyggjuna með sama óvildarhug og Sverrir Hermannsson gerði og sett hefur svip á óteljandi greinar hans síðan. Ellert fer vinsamlegum orðum um marga af fyrrverandi samherjum sínum í Sjálfstæðisflokknum. Ég þakka honum vinsamleg orð í minn garð, bæði í þessu viðtali og í annan tíma. 

Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir sjálfstæðisstefnuna og hún hefur vissulega skerpst af straumum frjálshyggju - flokkurinn hefur þó aldrei horfið frá uppruna sínum, það er  samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Hitt er athyglisvert fyir þróun stjórnmála, að hægfara hægrimaður á borð við Ellert skuli finna sér sess í Samfylkingunni. Í raun segir það meira um þróun stjórnmála til hægri og þar með frjálshyggju en stefna og gjörðir Sjálfstæðisflokksins.

Bubbi Morthens segir í sama tölublaði DV í dag:„Ef ég væri flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum, þá myndi ég segja að ég væri vinstrisinnaður sjálfstæðismaður. Ég er sjálfstæðismaður að því leyti að ég er það sem ég er og reyni að standa undir því sem ég er. Ég held að ef ég gengi í Sjálfstæðisflokkinn þá væri pláss fyrir mínar skoðanir þar.“