17.5.2007 14:48

Fimmtudagur, 17. 05. 07.

Þau þáttaskil urðu í stjórnmálum í dag, að stjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks slitnaði og Geir H. Haarde hóf viðræður við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um nýja stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég er eini ráðherrann, sem sat fyrsta ríkisráðsfund ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem var mynduð 23. apríl 1995 og segi frá upphafi ráðherradóms míns hér. Ég hef því verið í þessu samstarfi með framsóknarmönnum frá fyrsta degi með rúmlega eins árs hléi 2002 til 2003. 12 ára sögu mína af stjórnarsamstarfinu má lesa hér á þessari vefsíðu.

Fór klukkan 20.00 í Listasafn Íslands, þar sem kvartett Kammersveitar Reykjavíkur lék alla þrjá kvartetta Jóns Leifs og var þetta í fyrsta sinn, sem þeir voru allir fluttir saman á tónleikum.

Þegar ég vann á Morgunblaðinu kom það stundum fyrir, að ég skrifaði athugasemd ritstjóra aftan við einhverja grein, sem birtist. Oft bárust reiðilegar athugasemdir vegna þessa frá greinarhöfundum, sem þótti miður að sjónarmið þeirra fengju ekki að njóta sín að minnsta í einn dag óáreitt fyrir athugasemdum annarra.

Í gær sendi ég frá mér yfirlýsingu vegna áskorana Jóhannesar Jónssonar, kaupmanns, í auglýsingu hans um að strika út nafn mitt á kjördag. Yfirlýsing mín birtist í Morgunblaðinu í dag en fyrir neðan hana er síðan athugasemd frá Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs, við yfirlýsingu mína. Morgunblaðið skýrir því miður hvorki fyrir mér né öðrum lesendum sínum, hver sé aðild Hreins Loftssonar að þessu máli eða hvers vegna svo mikið er látið með hann, að yfirlýsing mín fái ekki að standa ein og óáreitt fyrir uppivöðslusemi Hreins. Fréttablaðið birtir yfirlýsingu mína, án þess að hnýta Hreini aftan við hana.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir á vefsíðu sinni, að það sé beinlínis rangt, að hann hafi hlakkað yfir því, að ég lækkaði á lista flokksins hann hefði hvergi lýst því yfir. Ég bendi lesendum síðu minnar á að hlusta á viðtal við Ágúst Ólaf á morgunvaktinni miðvikudaginn 16. maí og það sem hann sagði um fall tveggja ráðherra Framsóknarflokksins og útstrikanir á ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Vek athygli á þessu bréfi á vefsíðu Ögmundar Jónassonar. Þá hefur Salvör Gissurardóttir einnig fjallað um málið, Gísli Freyr Valdórsson, Stefán Friðrik og Björn Ingi Hrafnsson.