24.4.2007 18:18

Þriðjudagur, 24. 04. 07.

Sjálfstæðisflokkurinn opnaði nýja og fagmannlega gerða vefsíðu í dag og verður spennandi að fylgjast með því, hvernig hún nýtist í kosningabaráttunni. Ég las í Le Monde, að í fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi hefðu blogg-síður og bloggarar skipt miklu. Mest áberandi fyrir aftan þá Sarkozy og Bayrou, þegar þeir ávörpuðu kjósendur, eftir að úrslit voru kunn, voru vefsíðuheiti þeirra þeirra - sarkozy.fr er vefsíða forsetaefnisins.

Ég átta mig ekki á því, hvort skipulega sé fylgst með notkun netsins í aðdraganda þingkosninganna hér. Þetta hlýtur þó að verða orðin ný vídd í fjölmiðla- og stjórnmálafræði hér eins og annars staðar.

Norskir fjölmiðla gera mikið úr samkomulagi við okkur Íslendinga um öryggismál. Þeir gefa til kynna, að norski flugherinn telji sig geta dýpkað og stóraukið umsvif sín á N-Atlantshafi.  Við skipulag á Keflavíkurflugvelli eftir brottför varnarliðsins hefur verið gert ráð fyrir sérstöku öryggissvæði á vellinum, þar sem aðstaða verður fyrir herflugvélar að athafna sig.

Við leggjum eins og áður fram land og aðstöðu, þegar um hernaðarlegt samstarf við aðra þjóð er að ræða. Lengra verður ekki gengið af okkar hálfu, þar sem lög heimila íslenskum stjórnvöldum ekki að stunda hernaðarlega starfsemi. Gagnkvæmt samstarf af hálfu íslenskra stofnana á sviði öryggismála við stofnanir annarra ríkja er á borgaralegum grunni,  það er við lögreglu og strandgæslu, svo að dæmi séu tekin.

Engu var líkara af fréttum sjónvarpsins en að nýnæmi fælist í samstarfi við danska flotann. Þetta samstarf hefur verið náið um langt árabil og við Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana, veittum því nýjan pólitískan grundvöll með samkomulagi, sem ritað var undir 11. janúar 2007.

Ég fjallaði meðal annars um samstarf okkar í öryggismálum við aðrar þjóðir í ræðu á fundi SVS og Varðbergs 29. mars en athygli fjölmiðla og stjórnmálamanna beindist einkum að fáeinum orðum í ræðunni um nauðsyn varaliðs.

Ánægjulegt er að heyra fulltrúa allra flokka fagna eflingu háskólastarfsemi í landinu í sjónvarpsumræðum í kvöld. Það þótti alls ekki sjálfsagt á sínum tíma að veita það frjálsræði í háskólastarfsemi, sem ég beitti mér fyrir sem menntamálaráðherra. Nemendum hefur fjölgað úr 7000 í 18.000 á um einum áratug.